Fótbolti

Napoli lék í sérstakri Maradona-treyju og heiðraði hann með stórsigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lorenzo Insigne, fyrirliði Napoli, fagnaði fyrsta marki leiksins gegn Roma með treyju merktri Diego Maradona.
Lorenzo Insigne, fyrirliði Napoli, fagnaði fyrsta marki leiksins gegn Roma með treyju merktri Diego Maradona. getty/SSC NAPOLI

Napoli lék í sérstakri treyju til heiðurs Diego Maradona í leiknum gegn Roma í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Og leikmenn Napoli heiðruðu argentínska goðið með öruggum 4-0 sigri.

Leikmenn Napoli léku í sérstakri treyju í fánalitum Argentínu, hvítum og ljósbláum, til að heiðra minningu Maradonas sem lést á miðvikudaginn. Maradona er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Napoli en hann lék með liðinu á árunum 1984-91 og leiddi það til tveggja ítalskra meistaratitla.

Lorenzo Insigne, fyrirliði Napoli, kom sínum mönnum yfir með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu á 31. mínútu. Hann fagnaði með því að halda á og kyssa treyju merkta Maradona.

Á 64. mínútu sendi Insigne boltann á Fabián Ruiz sem skoraði með skoti fyrir utan vítateig. Dries Mertens og Matteo Politano skoruðu svo tvö mörk undir lokin og 4-0 sigur Napoli staðreynd.

Klippa: Napoli 4-0 Roma

Napoli hefur unnið báða leiki sína eftir að Maradona féll frá. Á fimmtudaginn sigraði Napoli Rijeka, 2-0, í Evrópudeildinni.

Napoli er í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með átján stig, fimm stigum á eftir toppliði AC Milan sem vann Fiorentina, 2-0, í gær.


Tengdar fréttir

Napoli valtaði yfir Rómverja

Minning Diego Maradona var heiðruð á San Paolo leikvangnum í kvöld og liðsmenn Napoli tóku sig til og völtuðu yfir AS Roma í ítölsku úrvalsdeildinni.

Agu­ero miður sín eftir and­lát Mara­dona

Sergio Aguero, framherji Man. City, er enn miður sín eftir andlát Diego Maradona fyrr í vikunni. Þetta staðfesti Pep Guardiola, stjóri liðsins, á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×