Viðskipti innlent

Þjóðverjarnir keyptu Hjörleifshöfða á 489 milljónir króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Victor Berg (annar frá vinstri), Páll Tómasson (til hægri við hann) og Jóhann Hróbjartsson (annar frá hægri) við undirritun samninga um stofnun fyrirtækisins LavaConcept í fyrra. Um er að ræða samvinnuverkefni Íslendinganna við þýska fyrirtækið STEAG um vinnslu á sandsteini. Aðrir á myndinni eru Þjóðverjar hjá STEAG.
Victor Berg (annar frá vinstri), Páll Tómasson (til hægri við hann) og Jóhann Hróbjartsson (annar frá hægri) við undirritun samninga um stofnun fyrirtækisins LavaConcept í fyrra. Um er að ræða samvinnuverkefni Íslendinganna við þýska fyrirtækið STEAG um vinnslu á sandsteini. Aðrir á myndinni eru Þjóðverjar hjá STEAG.

Power Minerals Iceland, íslenskt félag í 100 prósent eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft, greiddi 489 milljónir króna fyrir Hjörleifshöfða í Mýrdalshreppi. Vísir greindi frá sölunni í síðustu viku en fékk ekki upplýsingar frá kaupendum eða seljendum um hve miklir fjármunir skiptu um hendur. Systkinin Áslaug, Halla og Þórir Níels Kjartansbörn voru eigendur jarðarinnar.

Fasteignamat jarðarinnar er 490 þúsund krónur en um er að ræða lóðarmat enda engin hús á jöðrinni. Að auki er notkun á rekavið á jörðinni metinn 224 þúsund króna virði. Jörðin hafði verið formlega á sölu frá árinu 2016 og var 500-1000 milljónir sagt viðmiðunarverð.

Fram kemur í þinglýstum kaupsamningi jarðarinnar að þýsku aðilarnir hafi þegar greitt níu milljónir króna. Við þinglýsingu voru 340 milljónir króna greiddar til viðbótar. Þá verða 140 milljónir króna greiddar þegar umhverfismat og framkvæmdaleyfi vegna námuvinnslu STEAG á vikur og vikurvinnslu hefur verið veitt.

Horft til norðurs. Hjörleifshöfði er í forgrunni, en Hafursey er fjær, næst Kötlujökli.Þórir Níels Kjartansson

Til tryggingar á lokagreiðslunni gaf þýska félagið út tryggingarbréf sem tryggt er með fyrsta veðfrétti í Hjörleifshöfða.

Hjörleifshöfði var afhentur við undirskrift samnings, þann 24. nóvember. Systkinin þrjú skrifa öll undir samninginn fyrir hönd seljenda. Fyrir hönd kaupenda skrifa Nils Heinz Jansen og Julian David Hälker.

Jóhann Hróbjartsson, einn heimamanna sem hyggur á samstarf við þýska félagið um vikurvinnslu á jörðinni, segir þá Pál Tómasson og Victor Berg Guðmundssson minnihluta eigendur í nýju íslensku félagi sem stofnað hefur verið vegna kaupa á Hjörleifshöfða. Skráning á félaginu standi yfir og verið sé að ganga frá samningum.

Frétt í Morgunblaðinu í apríl 2009 þar sem Páll og Jóhann kynntu áform sín í Vík.

„Kerfið er hægvirkt vegna covid og taka þessi mál því lengri tíma en vanalega. Lögmenn okkar eru að klára að hnýta þetta allt saman þess dagana,“ segir Jóhann.

„Hvað okkur Íslendingana varðar þá er það að okkur hefur tekist að koma þessu verkefni af stað, sem mönnum hefur dreymt um hér í Mýrdalnum í áratugi aðal atriðið og atvinnuuppbygging getur nú loksins hafist, ekki skemmir fyrir að þetta verkefni er stórt í baráttunni við losun CO2 út í andrúmsloftið, þó svo að enginn hafi séð ástæðu til að fagna því en sem komið er.“


Tengdar fréttir

Hjörleifshöfði seldur Íslendingum og Þjóðverjum

Hjörleifshöfði í Mýrdalshreppi hefur verið seldur íslenskum og þýskum aðilum. Þetta herma heimildir fréttastofu. Til stendur að nýta jörðina meðal annars í ferðaþjónustu og vinnslu úr Kötluvikri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×