Fótbolti

Breyting á handarreglu sem hefði mögulega tryggt Íslandi stig í Köben

Sindri Sverrisson skrifar
Sitt sýnist hverjum um hvort dæma eigi hendi eins og í þessu tilviki, þegar dæmt var víti á Eric Dier eftir að Andy Carroll skallaði boltann í hönd hans.
Sitt sýnist hverjum um hvort dæma eigi hendi eins og í þessu tilviki, þegar dæmt var víti á Eric Dier eftir að Andy Carroll skallaði boltann í hönd hans. Getty/Newcastle United

Útlit er fyrir breytingar á reglunum um það hvenær dæma skuli víti á menn fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs í fótbolta.

Þetta fullyrðir ESPN í dag. Umtalsverðrar óánægju hefur gætt með núverandi reglur sem segja að ávallt skuli dæma brot ef að handleggur er fyrir ofan öxl þegar bolti fer í hann. Til að mynda var það gagnrýnt þegar dæmt var víti á Eric Dier eftir að boltinn var skallaður í hönd hans í leik gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni fyrir tveimur mánuðum.

Með reglubreytingunni, sem ef af verður tæki gildi á næstu leiktíð, yrði ekki sjálfkrafa dæmt víti í þessu tilviki, samkvæmt frétt ESPN um málið. Hið sama ætti þá við um vítið sem dæmt var á Hörð Björgvin Magnússon í uppbótartíma leiks Danmerkur og Íslands, en Danir skoruðu sigurmarkið í 2-1 sigri úr vítinu.

Klippa: Danmörk - Ísland 2-1

IFAB, alþjóðanefnd knattspyrnusambanda sem sér um að semja reglur fótboltans, á eftir að ákveða hvort breytingarnar verði samþykktar. Málið verður tekið fyrir 16. desember.

Samkvæmt heimildum ESPN felur reglubreytingin í sér að ef að hönd eða handleggur er nærri andliti til að verja það, eða ef að um eðlilega hreyfingu handar er að ræða, þá verði ekki lengur skylt að dæma brot, þó að meta þurfi hvert tilvik fyrir sig.

Vítaspyrnudómum hefur fjölgað gríðarlega í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð miðað við þá síðustu og sérstaklega þá þarsíðustu. VAR hefur gert dómurum auðveldara fyrir að fara eftir breyttum viðmiðum um hvenær dæma skuli hendi en þær breytingar hafa orðið á síðustu tveimur árum og hafa áhrif á fjölda vítaspyrnudóma. Tímabilið 2018-19 var að meðaltali dæmt víti á 27 leikja fresti, á 19 leikja fresti á síðustu leiktíð, en svo í 9. hverjum leik í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×