Erlent

Freista þess að vernda síðasta hvíta gíraffann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Karldýrið er talið vera síðasti hvíti gíraffinn í heiminum.
Karldýrið er talið vera síðasti hvíti gíraffinn í heiminum. ISHAQBINI HIROLA COMMUNITY CONSERVANCY

Dýraverndunarsamtök hafa sett staðsetningarbúnað á síðasta hvíta gíraffann í heiminum en markmiðið er að vernda dýrið fyrir veiðiþjófum. Veiðiverðir munu fylgjast með ferðum gíraffans í rauntíma.

Um er að ræða karldýr sem þjáist af sjaldgæfri genabreytingu sem kallast leucism en hún gerir það að verkum að ekkert litarefni er í feld skepnunnar.

Í mars síðastliðnum drápu veiðiþjófar hvítt kvendýr og sjö mánaða gamlan kálf úr sömu fjölskyldu og óttast er að karldýrið muni mæta sömu örlögum. Hræ kvendýrsins og kálfsins fundust á verndarsvæði í Garissa-sýslu í Kenía, þar sem karldýrið dvelur nú einn.

Hræ kvendýrsins og kálfsins fundust í mars sl. Þau höfðu verið drepin af veiðiþjófum.ISHAQBINI HIROLA COMMUNITY CONSERVANCY

Það sást fyrst til hvítra gíraffa í Kenía í mars 2016, tveimur mánuðum eftir að þeir sáust í Tanzaníu. Ári síðar komust þeir aftur í fréttirnar þegar mynd náðist af móður og kálfi.

Gíraffa er að finna í 15 Afríkuríkjum en þeir eru hæsta spendýr jarðar. Veiðiþjófar drepa dýrin og hirða feldinn, kjötið og ákveðna líkamshluta. Talið er að gíröffum hafi fækkað um 40% á síðustu þrjátíu árum, m.a. vegna veiðiþjófnaðar. 

Þeir telja nú um 68 þúsund skepnur á heimsvísu.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×