Innlent

Dómsmál ráðherra en ekki Lilju

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. vísir/vilhelm

Menntamálaráðherra var í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag krafin svara um ummæli sín í Sprengisandi á sunnudag. Þar ræddi Lilja Alfreðsdóttir um ráðuneytisstjóramálið svokallaða.

Aðspurð í Sprengisandi hvort hún hefði gengið of harkalega fram með málshöfðun sinni sagði Lilja: „Nei. Ég er ráðherra, ég er líka einstaklingur og verð alveg eins og allir aðrir í íslensku samfélagi að geta sótt minn rétt telji ég brotið á mér.“ 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði hvort það væri raunverulega skoðun ráðherra að þetta dómsmál snúist um persónu Lilju Alfreðsdóttur. 

„Þessi ummæli ráðherra eru merkileg og merkileg fyrir margra hluta sakir. Réttinn til að fara í mál hefur hún vitaskuld. Það er óumdeilt, en ráðherra þarf að vera meðvitaður um að það er ráðherra sem er þarna stefna konu fyrir dóm. Þetta er dómsmál ráðherrans og þetta er dómsmál ráðherrans í nafni ríkisstjórnarinnar. Í þessu felst ekki einhver afstaða einstaklings úti í bæ og þetta er algjört grundvallaratriði í umræðunni. Því þetta snýst um það hvernig þessi  ráðherra starfar, og hvernig hún beitir valdi sínu,“ sagði Þorbjörg.

„Mitt svar er einfalt og það er nei.“

Lilja svaraði því til að málsóknin væri eina leiðin til að sækjast eftir ógildingu. 

„Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn eru orðnir hræddir við að standa með sannfæringu sinni af hverju eru þeir í stjórnmálum? Er það að beitu hörku að fara fram á ógildingu á máli sem þú ert ekki sammála? Ég spyr bara; viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark eða þor til að standa með því sem þeir gera?“ spurði Lilja. „Mitt svar er einfalt og það er nei.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×