Fréttir

Jarðskjálfti yfir 3 að stærð fannst á höfuðborgarsvæðinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Veðurstofa Íslands

Tveir nokkuð stórir jarðskjálftar mældust á Hengilssvæðinu í kvöld, sá fyrri um klukkan 18:40 og var sá 2,8 að stærð. Nokkru síðar varð skjálfti upp á 3,5 en ennþá var unnið að því að yfirfara frumniðurstöður skjálftamælingar þegar fréttastofa náði tali af Einari Bessa Gestssyni, náttúruvársérfræðingi hjá Veðurstofu Íslands.

Fólk fann fyrir skjálftunum meðal annars í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði og Eyrarbakka. Nokkur fjöldi minni eftirskjálfta hefur mælst í kjölfarið.

Uppfært kl. 19:42:

Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni mældist stærri skjálftin 3,3 að stærð. Skjálftahrinan hófst klukkan 18:42 við Húsmúla á Hengilssvæðinu þegar skjálfti að stærðinni 2,8 reið yfir og margir smáir eftirskjálftar fylgdu á eftir. Skjálftinn fannst bæði í Hveragerði, á Eyrarbakka og víða á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×