Erlent

Segja Biden hafa unnið í Arizona

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Biden, er fyrsti Demókratinn til að vinna í Arizona síðan Bill Clinton tókst það 1996. 
Biden, er fyrsti Demókratinn til að vinna í Arizona síðan Bill Clinton tókst það 1996.  AP/Carolyn Kaster

Joe Biden var í nótt lýstur sigurvegari í Arizona sem skilar honum ellefu kjörmönnum og hefur hann nú náð 290 kjörmönnum en 270 þarf til að tryggja sér embættið. Nokkrar af helstu sjónvarpsstöðvum Bandaríkjanna greindu frá því í nótt að Arizona félli í skaut Bidens, en afar mjótt var á munum í ríkinu og munar aðeins um ellefu þúsund atkvæðum á Biden og Donald Trump, núverandi forseta.

Fox og AP riðu á vaðið strax á kosninganótt

Raunar höfðu nokkrar fréttaveitur á borð við Fox News og AP þegar lýst Biden sigurvegara í Arizona, það gerðu þær strax á kosninganótt, en í ljósi þess hve mjótt var á munum biðu margir með þá ákvörðun.

Nú hafa hinir stóru miðlarnir bæst í hópinn. Arizona hefur yfirleitt kosið sér Repúblikana fyrir forseta og síðasti Demókratinn sem fór með sigur af hólmi þar var Bill Clinton árið 1996.

Þrennt skýrir sigur Bidens

CNN segir þrennt helst skýra sigur Bidens í Arizona. Í fyrsta lagi hafi fólki af latneskum uppruna fjölgað mjög í ríkinu. Þá hefur verið mikið um fólksflutninga frá svæðum þar sem Demókratar hafa verið sterkir, ríkjum á borð við Illinois og Kalíforníu. Í þriðja lagi virðist sem kjósendur í úthverfum Arizona sem hingað til hafi kosið Repúblikana hafi snúið baki við flokknum þar sem þeim hafi lítt hugnast áherslur Trumps forseta í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×