Erlent

Þaulsetinn forsætisráðherra Barein látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Khalifa bin Salman Al Khalifa. Ekki liggur fyrir hvers vegna hann dó en hann hafði verið undir læknishöndum í Bandaríkjunum.
Khalifa bin Salman Al Khalifa. Ekki liggur fyrir hvers vegna hann dó en hann hafði verið undir læknishöndum í Bandaríkjunum. AP/Jon Gambrell

Prinsinn Khalifa bin Salman Al Khalifa, forsætisráðherra Barein og einn þaulsetnasti forsætisráðherra heims, er látinn. Hann var 84 ára gamall og hafði veridð undir læknishöndum í Bandaríkjunum. Konungsfjölskylda Barein opinberaði dauðsfall hans í morgun en ekki kom fram af hverju hann hefði dáið.

Al Khalifa ættin hefur stjórnað Barein í rúmar tvær aldir. Khalifa bin Salman tókst að koma stjórnvöldum sínum í gegnum Arabíska vorið svokallaða árið 2011, þegar umfangsmikil mótmæli fóru fram í Barein og afsaganar hans vegna spillingar var krafist.

Prinsinn greip til harðra aðgerða gegn mótmælendum og hefur hann oft verið sakaður um harðræði.

Sheikh Isa bin Salman Al Khalifa, bróðir, Khalifa bin Salman, varð konungur þegar Barein fékk sjálfstæði frá Bretlandi árið 1971. Samkvæmt óformlegu samkomulagi hafði hann stýrt samskiptum eyríkisins við önnur ríki og Hkalifa bin Salman stýrði ríkisstjórn og efnahagi landsins.

Auður prinsinn var augljós öllum en samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar átti hann meðal annars einkaeyju undan ströndum Barein þar sem hann hitti erlenda erindreka. Hann átti einnig einkagarð þar sem hann ræktaði páfugla og gasellur.

Khalifa al Salmann hafði lengi verið sakaður um spillingu. Hann tengdist til að mynda spillingarmáli gegn álfyrirtækinu Alcoa sem var sakað um að greiða embættismönnum í Barein mútur. Alcoa greiddi 384 milljónir dala í sekt vegna málsins árið 2014.

Þá hefur komið í ljós að starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna í Manama, höfuðborg Barein, sögðu prinsinn hafa tekjur af ríkisreknum fyrirtækjum eins og Bahrain Petroleum Co. og Aluminum Bahrain.

Ronald E. Naumann, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Barein, skrifaði til að mynda árið 2004 að prinsinn væri örugglega spilltur en hann hefði þó nútímavætt Barein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×