Fótbolti

Sky Sports: Eng­land gæti þurft að gefa leikinn gegn Ís­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Íslands og Englands á Laugardalsvelli í sumar.
Úr leik Íslands og Englands á Laugardalsvelli í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Samkvæmt heimildum Sky Sports gæti enska landsliðið þurft að gefa leikinn gegn Íslandi fari svo að leikur Íslands og Danmerkur fari fram.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að England gæti þurft að færa leikinn gegn Íslandi út fyrir landsteinana vegna sóttvarnareglna þar í landi. Fær fólk frá Danmörku ekki að koma til landsins eftir að upp kom kórónuveirusmit í minkum í Danmörku. 

Ísland og Danmörk mætast aðeins fjórum dögum áður en leikur Englands og Íslands átti að fara fram á Wembley í Lundúnum þann 18. nóvember næstkomandi.

Samkvæmt Sky Sports News gæti England einfaldlega þurft að gefa leikinn sem fram á að fara á miðvikudeginum í næstu viku. Ástæðan er sú að það er ekki víst að reglur ríkisstjórnar Bretlands gefi svigrúm fyrir því að leikurinn fari fram á hlutlausum velli.

Það eitt að ensku leikmennirnir kæmust í snertingu við íslensku leikmennina sem hefðu verið í Danmörku myndi þýða að leikmenn enska liðsins þyrftu að fara í sóttkví við komuna aftur til Englands.

Þá hefur Sky það eftir öruggum heimildum að nær ómögulegt sé að færa leiki Þjóðadeildarinnar þar sem það er ekki hægt að finna tíma til að spila leikinn.


Tengdar fréttir

„Best að halda öllum öruggum“

Arnór Ingvi Traustason segir það hundfúlt en rétta ákvörðun að hann skyldi vera tekinn út úr íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi á fimmtudag í úrslitaleik um sæti á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×