Enski boltinn

Fær bætur frá WADA sem tók frá honum úrslitaleik með Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Mamadou Sakho í leik með Liverpool í desember 2016.
 Mamadou Sakho í leik með Liverpool í desember 2016. Getty/David Price

Mamadou Sakho, varnarmaður Crystal Palace og fyrrum leikmaður Liverpool, hefur sætt sig við málalok eftir að hafa ranglega verið settur í lyfjabann fyrir rúmum fjórum árum síðan.

Mamadou Sakho hefur nú sagt frá því að Alþjóðalyfjaeftirlitið, WADA, hafi viðurkennt mistök sín frá því um vorið 2016.

Sakho var dæmdur í bann í stuttan tíma eftir að fitubrennsluefnið higenamine fannst í sýni hans.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hreinsaði hann af því broti þegar í ljós kom að efnið var ekki á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins.

Lögmaður Alþjóðalyfjaeftirlitsins viðurkenndi það í gær að eftirlitið gangist við því að það hafi ekki átt að gefa út þær ærumeiðandi ásakanir gegn Mamadou Sakho sem og það gerði.

Þótt bannið hafi ekki verið langt þá kom það engu að síður í veg fyrir að Mamadou Sakho gæti spilað úrslitaleik í Evrópudeildinni með Liverpool. Liverpool mætti þar Sevilla án Sakho og tapaði þar 3-1. Hann fékk heldur ekki að spila undanúrslitaleikina í keppninni eða síðustu fimm leiki liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Hinn þrítugi Sakho heldur því einnig fram að bannið hafi komið í veg fyrir það að hann var valinn í EM-hóp Frakka á Evrópumótinu sem fór fram seinna um sumarið.

„Ég er ánægður með WADA sé búið að viðurkenna það að ég hafi ekki brotið neinar lyfjareglur UEFA, að ég svindlaði ekki, að ég hafi aldrei ætlaði mér að búa mér til forskot og að ég hafi gert þetta í góðri trú,“ skrifaði Mamadou Sakho í færslu á Twitter sem var bæði á ensku og frönsku.

„Ég er einnig ánægður með það að WADA hefur nú beðið mig afsökunar og einnig greitt mér verulegar skaðabætur. Ég lít svo á að ég hafi fengið uppreisn æru og ég horfi nú fram á veginn á mínum ferli,“ skrifaði Sakho.

„Það versta sem þú getur verið sakaður um sem íþróttamaður er að nota ólögleg lyf. Þessi dagur er því stór dagur í sögu minni,“ skrifaði Mamadou Sakho eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×