Viðskipti innlent

Vill sam­einingu Skattsins og em­bættis skatt­rann­sóknar­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í gær.
Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í gær. Vísir/Vilhelm

Embætti skattrannsóknarstjóra mun sameinast Skattinum nái fumvarp fjármála- og efnahagsráðherra fram að ganga.

Frumvarpið var kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í gær, en þar segir að markmiðið sé að „styrkja eftirlit og rannsóknir skattundanskota og [sé] þess vænst að verði það að lögum aukist þungi í baráttunni gegn skattsvikum.“

Á vef ráðuneytisins segir að í frumvarpinu sé lagt til að embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins verði sérstök eining innan Skattsins, sem sameinist embætti ríkisskattstjóra.

„Til viðbótar felast í frumvarpinu ýmsar tillögur um að skýra nánar fyrirkomulag rannsóknar í kjölfar skattalagabrota sem eiga að stuðla að því að gera kerfið gagnsærra og skilvirkara. Er þar reynt að styrkja réttaröryggi einstaklinga við rannsókn skattalagabrota og þar einkum horft til styttingar málsmeðferðartíma og einföldunar málsmeðferðar.

Meðal tillagna er að útiloka að álagi verði beitt samhliða stjórnvaldssektum eða refsingum vegna skattalagabrota. Er þar jafnframt höfð hliðsjón af því sem fram hefur komið í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu að öruggasta leiðin til að tryggja að ekki sé brotið gegn 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sé að beita ekki álagi samhliða refsingu,“ segir í tilkynningunni.

Vegna dóma MDE

Tillögur um breytingarnar og frumvarpið eru raktar til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í tengslum við rannsókn og saksókn skattalagabrota á Íslandi. Var á vormánuðum 2019 skipuð nefnd til að fjalla um rannsóknir og saksókn skattalagabrota. Nefndin skilaði skýrslu sinni til ráðherra í september 2019.

Frestur til að skila inn umsögnum í samráðsgáttinni um málið er til 16. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×