Fótbolti

Fagnar ekki eyrnalokkaumræðunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson með eyrnalokkinn umdeilda.
Albert Guðmundsson með eyrnalokkinn umdeilda. vísir/vilhelm

Ronald De Boer, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, fór nánast af hjörunum þegar Albert Guðmundsson mætti með eyrnalokka í viðtal eftir leik AZ Alkmaar og Viktoria Plzen í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í lok ágúst.

„Ég veit ekki hvort þið tókuð eftir þessu en hann var búinn að setja á sig tvo demants eyrnalokka. Hann fór inn í klefa til að setja á sig eyrnalokka án þess að fara í sturtu,“ sagði De Boer sem var sérfræðingur Fox Sports um leikinn. Hann taldi að þetta væri til marks um að Albert væri ekki með rétt hugarfar.

„Ég fagna ekkert þessari umræðu,“ sagði Albert aðspurður um eyrnalokkaatvikið í samtali við Vísi.

Albert þvertekur fyrir að þessi uppákoma og umræðan sem henni fylgdi hafi haft áhrif á sig.

„Ef ég fengi að ráða hefði hún aldrei komið upp en þetta truflar mig ekkert. Alltaf þegar ég kem í leiki og á æfingasvæðið er ég ekki að hugsa um neina umfjöllun, hvort sem hún er um eyrnalokkana eða annað, heldur bara um að ná sigri og sýna hvað ég get. Maður þarf alltaf að svara inni á vellinum,“ sagði Albert.

Landsliðsmaðurinn hefur farið mikinn með AZ að undanförnu og skorað fimm mörk í síðustu þremur leikjum liðsins. Hann hefur alls skorað sjö mörk í átta leikjum á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Albert ánægður eftir fimm marka vikuna en vill meira

Albert Guðmundsson hefur verið sjóðheitur að undanförnu og er markahæsti leikmaður AZ Alkmaar á tímabilinu. Hann er ánægður með frammistöðu sína á tímabilinu en er hvergi nærri hættur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×