Fótbolti

Albert ánægður eftir fimm marka vikuna en vill meira

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir AZ Alkmaar á tímabilinu en Albert Guðmundsson, eða sjö talsins.
Enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir AZ Alkmaar á tímabilinu en Albert Guðmundsson, eða sjö talsins. getty/JAN DEN BREEJEN

Albert Guðmundsson hefur flogið hátt með liði sínu, AZ Alkmaar, að undanförnu. Hann skoraði tvívegis í 3-0 sigri liðsins á RKC Waalwijk í hollensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Þetta var fyrsti deildarsigur liðsins á tímabilinu.

„Þetta var kærkominn sigur í deildinni. Við vorum búnir að gera fimm jafntefli og það var mikilvægt að ná loksins þremur stigum. En það var enginn efi í okkar herbúðum. Við vorum búnir að gera vel í Evrópudeildinni og spila vel í deildarleikjunum þótt úrslitin hafi ekki fylgt með,“ sagði Albert í samtali við Vísi.

Vikan 25. október til 1. nóvember 2020 var sérstaklega góð fyrir Albert. Hann byrjaði á því að skora í 2-2 jafntefli við Den Haag í hollensku deildinni um þarsíðustu helgi, skoraði síðan tvö mörk í 4-1 sigri á Rijeka í Evrópudeildinni síðastliðinn fimmtudaginn og aftur tvennu í sigrinum á Waalwijk á sunnudaginn. Fimm mörk í þremur leikjum en fyrir þessa hrinu hafði Albert ekki verið í byrjunarliði AZ í mánuð.

„Það hefur ekkert mikið breyst. Ég hef fengið nokkra leiki í röð sem hefur hjálpað mér. Ég tel líka að síðasti landsleikur [gegn Belgum] hafi hjálpað. Í síðustu þremur leikjum hef ég spilað frammi sem ég er frábrugðið frá því sem hefur verið hjá AZ þar sem ég hef aðallega verið kantinum,“ sagði Albert. „Annars er allt eins og maður leggur alltaf jafn mikið á sig. Stundum dettur þetta fyrir mann og stundum ekki.“

Belgaleikurinn hjálpaði

Albert var í byrjunarliði Íslands gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði og fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína í þeim leik.

„Ég spilaði rúmar 80 mínútur og það var gott fyrir mig að fá leik og halda mér í góðu standi. Það er alveg hugsað um að maður sé í góðu standi hérna en það er allt öðruvísi að vera í leikæfingu en bara æfingaryþma,“ sagði Albert.

Albert með boltann í leik Íslands og Belgíu.vísir/vilhelm

Hann hefur skorað sjö mörk í átta leikjum í vetur og er langmarkahæstur í liði AZ á tímabilinu.

„Ég er alveg sáttur með þetta en stefni á meira og vonandi held ég mínu striki og tek þetta með mér inn í næsta landsleikjahlé,“ sagði Albert.

Keppni hætt þegar hann kom til baka

Hann fótbrotnaði í leik gegn Heracles fyrir rúmu ári og við tók löng og ströng endurhæfing.

„Hún var erfið og löng og það var svekkjandi að þegar ég kom til baka var keppni í hollensku deildinni hætt. Það var óheppileg tímasetning en gerði mig enn hungraðari í að vera klár þegar deildin byrjaði í vetur. Mér finnst ég vera í helvíti góðu standi núna,“ sagði Albert sem náði aðeins að spila átta leiki á síðasta tímabili.

Albert hefur leikið í Hollandi síðan 2013, fyrst með Heerenveen, svo PSV Eindhoven og loks með AZ Alkmaar.getty/JAN DEN BREEJEN

Þegar keppni í Hollandi var blásin af síðasta vor var AZ jafnt Ajax að stigum á toppi hollensku úrvalsdeildarinnar. Eftir sex umferðir á þessu tímabili er AZ í 9. sæti með átta stig, tíu stigum á toppnum.

„Markmiðið fyrir tímabilið var að berjast við Ajax og PSV Eindhoven um titilinn. Þetta er strembið núna en mótið er langt og við erum ekki búnir að missa trúna þótt við séum búnir að gera okkur erfitt fyrir,“ sagði Albert.

Þarf að taka ábyrgð á fleirum en sjálfum sér

Hann hefur ekki bara notið velgengni inni á vellinum að undanförnu en ekki er langt síðan hann varð faðir í fyrsta sinn.

„Maður þarf að taka aðeins meiri ábyrgð en bara á sjálfum sér. Þetta var mikið meira að hugsa um rassgatið á sjálfum sér áður en nýtt líf kom í heiminn sem þarf að hugsa um allan sólarhringinn. Lífið hefur samt ekki mikið breyst fyrir utan að það bættist ein önnur manneskja við,“ sagði Albert að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×