Innlent

Hundrað viðtöl og ýmsir ferlar en vonandi niðurstaða eftir viku

Kolbeinn Tumi Daðason og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðhera við opnun nýs sjúkrahótels Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðhera við opnun nýs sjúkrahótels Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, telur ýmislegt benda til þess að Landspítalinn hafi náð góðum tökum á málum á Landakoti eftir að hópsýking kom upp á spítalanum þann 22. október. Hann reiknar með niðurstöðu eftir viku úr rannsókn á því hvað aflaga fór.

140 einstaklingar hafa greinst með Covid-19 undanfarna tíu daga sem rekja má til hópsmitsins á Landakoti. Þar af eru 41 sjúklingur á Landakoti, sem hýsir aldraða sjúklinga, og 54 starfsmenn.

Starfsfólk lyft grettistaki

Á upplýsingafundinum í dag kom fram að gríðarleg vinna hefði verið unnin í því að endurskipuleggja starfsemina á Landakoti. Þar hefur starfsfólk lyft grettistaki að sögn Páls.

Varðandi rannsókn á því hvað miður fór og endurskipulagningarvinnuna segir Páll býsna viðamikið mál að reyna að skilja það almennilega.

Landakotspítali stendur við samnefnd tún við Túngötu í Vesturbæ Reykjavíkur.Vísir/Vilhelm

„Við erum með sérstakt fólk í því. Það þarf meðal annars að taka viðtöl við og ítarleg viðtöl við um 100 manns og rekja alls kyns ferla. Ég geri ráð fyrir því að eftir um það bil viku liggi fyrir niðurstaða,“ segir Páll.

Mönnun og húsnæðið áskorun

„En við sjáum svona almenna þætti sem ég hef nefnt áður að það eru meðverkandi þættir að minnsta kosti og það eru hlutir eins og það að þessi veira virðist vera um margt vera meira smitandi heldur en fyrri afbrigði.“

Hann bætir við að húsnæðið sé áskorun.

„Síðan er vissulega mönnun áskorun að því leyti að það hefur valdið okkur vanda við að hólfaskipta sem við vitum að myndi takmarka sýkingar frekar. En við höfum að því er virðist og ég vona að það sé rétt þá erum við að ná ágætis tökum á þessu hópsmiti núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×