Erlent

Ekkert innanlandssmit í Ástralíu í fyrsta sinn í fimm mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Kaffihús og veitingastaðir opnuðu að nýju í Melbourn fyrir helgi.
Kaffihús og veitingastaðir opnuðu að nýju í Melbourn fyrir helgi. AP/Asanka Brendon

Ekkert innanlandssmit Covid-19 greindist í Ástralíu í gær og er það í fyrsta sinn í nærri því fimm mánuði sem það gerist. Í Viktoríu, fylki þar sem rúmlega 90 allra dauðsfalla vegna veirunnar hafa orðið, hefur enginn dáið né greinst smitaður í tvo daga.

Greg Hunt, heilbrigðisráðherra, tilkynnti þetta í nótt og sagði að þetta hefði ekki gerst frá 9. júní. Hann sendi sérstakar þakkir til heilbrigðisstarfsmanna og áströlsku þjóðarinnar.

Hunt sagði þetta hafa verið mikið átak og niðurstaðan væri afrek, þó enn væri mikil vinna óunnin.

Samkvæmt frétt Reuters segja sérfræðingar að skjót og umfangsmikil viðbrögð hafi skipt miklu máli í baráttu Ástrala gegn veirunni og sömuleiðis hafi það hjálpað að fólk hafi verið duglegt við að fara eftir sóttvarnarreglum.

Einhverjar ströngustu sóttvarnarreglur heimsins voru að mestu leyti felldar niður í Viktoríu í síðustu viku eftir 111 daga. Kannanir hafa sýnt að meirihluti íbúa studdi aðgerðirnar. Lögreglan kvartaði þó yfir því í ágúst að margir íbúar Melbourne, stærstu borgar fylkisins, færu ekki eftir reglunum.

Sjá einnig: Réðst á lögreglukonu vegna spurningar um grímuleysi

Enn er 61 virkt smit í Melbourne. Ráðamenn í fylkinu vara við því að íbúar megi ekki verða kærulausir.

„Að sjá 50 þúsund nýsmitaða á dag í Frakklandi, að sjá Belga senda sjúklinga út úr landi vegna álags. Þessu hefðum við mögulega staðið frammi fyrir ef okkur hefði ekki tekist að ná tökum á ástandinu,“ hefur Reuters eftir Brett Sutton, sem stýrir heilbrigðiskerfi Viktoríufylkis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×