Enski boltinn

Sigur og sjálfs­mark í fyrsta leik Daníels Leó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daníel Leó byrjaði sinn fyrsta leik hjá Blackpool í dag.
Daníel Leó byrjaði sinn fyrsta leik hjá Blackpool í dag. Vísir/Vilhelm

Daníel Leó Grétarsson lék sinn fyrsta leik fyrir Blackpool í ensku C-deildinni í dag. Varð hann fyrir því óláni að skora sjálfsmark í 2-1 sigri liðsins. Þá kom Jón Daði Böðvarsson inn af varamannabekk Milwall í 0-1 tapi.

Blackpool heimsótti Burton Albion í svokölluðum sex stiga leik í ensku C-deildinni í dag. Lið Blackpool var aðeins með einu stigi meira en Burton fyrir leikinn en bæði lið eru í neðri hluta deildarinnar.

Daníel Leó lék sinn fyrsta leik fyrir Blackpool frá því hann gekk í raðir félagsins frá norska liðinu Álasund þann 5. október. Lék hann í miðverði.

Jerry Yates kom gestunum yfir á 21. mínútu og þannig var staðan allt fram á 63. mínútu leiksins. Þá hrökk skot heimamanna af Daníel og í netið. Markið skráð sem sjálfsmark og staðan 1-1.

Yates var aftur á ferðinni þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka og reyndist það sigurmark leiksins. Staðan 2-1 Blackpool í vil sem er nú komið upp í 16. sæti deildarinnar með tíu stig eftir tíu umferðir. Peterborough United trónir á toppi deildarinnar með 22 stig.

Jón Daði lék síðustu 11 mínúturnar í liði Millwall er liðið tapað 0-3 á heimavelli fyrir Huddersfield Town. Huddersfield skoraði tvívegis undir lok leiks er Millwall hafði hent öllum fram til að reyna jafna.

Millwall er í 7. sæti með 15 stig eftir níu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×