Innlent

Kristmann Eiðsson látinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristmann Eiðsson
Kristmann Eiðsson

Kristmann Eiðsson, kennari og þýðandi, er látinn 84 ára gamall. Kristmann lést á Landakoti þriðjudaginn 27. október en kórónuveiran var banamein hans.

Kristmann fæddist á Fáskrúðsfirði þann 27. maí árið 1936. Tveimur áratugum síðar lauk hann stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík. Um svipað leyti giftist hann Kristínu Þorsteinsdóttur, eiginkonu sinni til rúmlega sextíu ára. Kristín var ræstingastjóri á Landspítalanum. Hún féll frá árið 2017.

Kristmann hóf starfsferil sinn sem blaðamaður hjá Frjálsri þjóð á sjötta áratugnum. Hann vann við blaðamennsku af og til eftir það.

Þá starfaði Kristmann í á fjórða áratug sem kennari við Réttarholtsskóla í Reykjavík. Þar var enskukennsla í aðalhlutverki auk þess sem hann kenndi bæði íslensku og dönsku. Má ætla að þúsundir Íslendinga hafi hlotið leiðsögn Kristmanns í skólanum.

Margir kannast við Kristmann fyrir þýðingar hans í Ríkissjónvarpinu. Þar þýddi hann marga af vinsælustu þáttum á dagskrá og má nefna Húsbændur og hjú sem dæmi. Þá hugkvæmdist honum að nefna erlendu þættina Holocaust Helförina. Fann hann þar gömlu íslensku orði nýja merkingu sem hefur síðan orðið virkt í tungumálinu.

Kristmann hóf störf við þýðingar hjá Ríkisútvarpinu árið 1967 og starfaði fram á tíunda áratuginn.

Kristmann lætur eftir sig fjögur börn, barnabörn og barnabarnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×