Innlent

Óánægður með viðbrögð landlæknis í Landakotsmálinu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítalans
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítalans

Yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans segist vera ósáttur við að heyra að svo gæti farið að kórónuveiurusmitið sem kom upp á Landakoti verði rannsakað sem alvarlegt atvik. Þetta segir Már Kristjánsson í samtali við Morgunblaðið í morgun og er þar að vísa til ummæla Kjartans Hreins Njálssonar aðstoðarmanns landlæknis sem sagði við mbl.is í gær að hópsmitið á Landakoti yrði mögulega tilkynnt sem alvarlegt atvik og yrði þá rannsakað sem slíkt. Lögregla rannsakar nú atvikið um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni en Kjartan Hreinn tekur þó fram í samtalinu við mbl.is að þau mál séu þó ekki sambærileg.

Már segist samt mjög óánægður með þessi viðbrögð embættisins. Hann segir slík ummæli, að þetta sé atvik sem þurfi að rannsaka, ganga þvert gegn því sem sagt hafi verið hingað til um samstöðu í baráttunni við faraldurinn.

Smitrakningin mikilvægust á farsóttartímum

„Á farsóttartímum er mikilvægast að rekja smit – rakning er ígildi rannsóknar og rakning er tólið sem höfum til að finna út hvað er á seyði,“ segir Már í samtali við blaðið og bætir við að ekkert útlit sé fyrir að nokkuð glæpsamlegt hafi átt sér stað eða að misbrestur hafi endilega orðið í starfsemi Landakotsspítala.

Sjálfsagt að skoða upptökin

„Starsfmenn, sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa ekki á þessum tímapunkti að heyra af því að það sé verið að rannsaka þá eða að gefa í skyn að einhverja vanrækslu af þeirra hálfu.“

Már tekur þó fram að sjálfsagt sé að skoða upptök hópsmitsins til þess að koma megi í veg fyrir að svona hendi aftur, en bætir við að ekkert tilefni sé til að tilkynna um þetta atvik sérstaklega, „hvað þá að það leiði á endanum til kæru eða einhvers slíks.“


Tengdar fréttir

Búa sig undir tvær erfiðar vikur

79 smit hafa nú verið rakin til hópsýkingar Covid-19 á Landakoti. Starfsmenn Landspítala búa sig nú undir erfiðar tvær vikur hið minnsta, að sögn forstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×