Innlent

Mörg smit hjá við­­kvæmum hópum hefðu al­var­­legar af­leiðingar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Á fimmta tug sjúklinga hefur smitast af kórónuveirunni á heilbrigðisstofnunum síðustu daga. Sóttvarnalæknir segir að fjölgun smitaðra geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið.

Í gær greindust 58 með kórónuveiruna innanlands, þar af voru 45, eða 78 prósent, í sóttkví. Af þeim er talsverður fjöldi sem smitast hefur á heilbrigðisstofnunum.

Af þeim sem hafa smitast á heilbrigðisstofnunum síðustu daga, svo vitað sé, eru flestir, eða tuttugu og níu, á Landakoti. Tíu hafa smitast á Reykjalundi, tveir á Sólvöllum á Eyrarbakka og einn á Vogi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur líklegt að fleiri innan þessara heilbrigðisstofnana eigi eftir að greinast.

„Mér sýnist að smitið sé upprunnið út frá smiti hjá starfsmanni eða starfsmönnum sem hafa mætt í vinnu veikir,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu.

Þórólfur telur að málið sýni fram á mikilvægi þess að fólk sem er veikt mæti ekki til vinnu, og að yfirmenn á vinnustöðum ítreki við sitt starfsfólk að mæta ekki veikt til vinnu og fara í sýnatöku. Hann segir þá mikilvægt að allir hugi að einstaklingsbundnum sóttvörnum, noti viðeigandi hlífðarbúnað og annað slíkt.

Hann segir þá að aukning smita hjá viðkvæmum hópum samfélagsins geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið.

„Þetta sýnir bara það að geta heilbrigðiskerfisins og spítalakerfisins er ákveðnum takmörkunum háð og það þarf ekki mikið til til þess að yfirkeyra svona stofnun eins og til dæmis Landspítalann. Við höfum verið að benda á það að þess vegna erum við að beita þessum hörðu samfélagslegu aðgerðum.“

Segir ljós að finna í fréttum undanfarinna daga

Þórólfur segir þó ljósan punkt að finna í fréttum síðastliðinna daga af framgangi faraldursins hér á landi.

„Það að við erum á nokkuð góðu róli með þessu samfélagslegu smit. Ef við tökum þetta hópsmit á Landakoti út, og það er ekki mjög líklegt að það smiti mikið út frá sér, þá erum við með tæplega 30 samfélagsleg smit í gær, sem maður hefði verið ánægður með út af fyrir sig,“ segir Þórólfur.

Hann segir þá afar jákvætt að af þeim sem greinast séu tæplega 80 prósent í sóttkví.

„Það er líka jákvætt um það að hægt sé að ná fyrr tökum á þessu. Það þarf að horfa á þetta svona,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×