Innlent

Landa­mæra­vörður fletti í­trekað upp upp­lýsingum um fyrr­verandi maka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konan var sakfelld í Landsrétti í gær.
Konan var sakfelld í Landsrétti í gær. Vísir/Vilhelm

Landamæravörður var í gær sakfelld í Landsrétti fyrir að hafa ítrekað flett upp upplýsingum um fyrrverandi maka sinn og aðra konu í lögreglukerfinu, LÖKE, án þess að það tengdist starfi hennar. Var henni gert að greiða hundrað þúsund króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna eða sæta átta daga fangelsi.

Konunni er gert það að sök að hafa á ákveðnu tímabili ítrekað flett upp málum í LÖKE sem tengdust fyrrverandi unnusta hennar og annarri konu sem hún hafði átt í samskiptum við vegna lögreglumáls. Hún hafi skoðað upplýsingar um þau og lögreglumál þeim tengd án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar sem landamæravörður.

Konan var sakfelld fyrir málið í Héraðsdómi Reykjaness þann 30. nóvember 2017 eftir að hún játaði brotin. Málinu var áfrýjað og það endurupptekið í héraði og var hún sakfelld að nýju þann 31. janúar 2019.

Í niðurstöðukafla dóms Landsréttar segir: „Ákærða hefur játað að hafa gert fyrirspurnir í lögreglukerfinu um nánar tilgreinda einstaklinga án þess að það hafi tengst starfi hennar. […] Misnotaði hún með því aðstöðu sína sem landamæravörður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×