Innlent

Býst við fleiri smitum á Landakoti

Kjartan Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Þetta er í annað skiptið sem kórónuveirusmit koma upp á Landakoti. Fyrst gerðist það í mars.
Þetta er í annað skiptið sem kórónuveirusmit koma upp á Landakoti. Fyrst gerðist það í mars. Vísir/Vilhelm

Tuttugu og sex starfsmenn og sjúklingar á Landskotsspítala hafa nú greinst smitaðir af kórónuveirunni og býst sóttvarnalæknir við að þeim gæti fjölgað eitthvað á næstu dögum. Hópsmitið sýni hversu lítið þarf til að veiran komist inn í viðkvæma hópa þrátt fyrir strangar reglur og takmarkanir.

Landakotsspítala var lokað eftir að hópsmitið kom upp. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að nú séu sextán sjúklingar og tíu starfsmenn smitaðir. Hátt í hundrað starfsmenn séu í sóttkví.

„Ég held að það séu nú kannski ekki öll kurl komin til grafar ennþá. Við eigum eftir að fá fleiri sem bætast í þennan hóp en vonandi ekki svo marga í viðbót,“ segir hann.

Uppruni sýkingarinnar hefur ekki verið rakinn en Þórólfur segir aðeins þrjá leiðir sem veiran hafi getað farið inn á sjúkrahúsið: með starfsmönnum, sjúklingum eða aðstandendum þeirra.

„Það sýnir sig bara hvað þetta er viðkvæmt og oft erfitt. Það þarf ekki mikið til að veiran geti komist inn í þessa viðkvæmu hópa þrátt fyrir strangar reglur og takmarkanir,“ segir hann.

Stór hluti þeirra 76 einstaklinga sem greindust smitaðir af veirunni innanlands í gær var á Landakoti. Nýju smitum hafði fækkað nokkuð undanfarna daga en fjöldinn í gær er sá mesti frá 14. október.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.Vísir/Vilhelm

Þórólfur segir þetta nokkuð bakslag en breyti þó ekki stöðu faraldursins svo mikið.

„Við höfum alltaf talað um það að við getum búist við því að sjá svona hópsýkingar þannig að kúrfan getur verið upp og niður á milli daga,“ segir hann og bendir á að af þeim sem greindust í gær hafi um 80% verið í sóttkví.

„Það er ljósi punkturinn í þessu þannig að vonandi tekst bara að ná fljótt utan um þetta,“ segir sóttvarnalæknir.


Tengdar fréttir

Hópsmit á Landakoti

Hópsmit er komið upp á Landakoti og hafa nú alls sextán sjúklingar og sex starfsmenn greinst með veiruna. Landakoti hefur nú verið lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×