Innlent

Engar tilkynningar um slys á fólki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úr samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð.
Úr samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð. Almannavarnir

Engar tilkynningar hafa borist almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um slys á fólki eða tjón á mannvirkjum í tengslum við stóran jarðskjálfta sem reið yfir á Reykjanesi á öðrum tímanum í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Jarðskjálftinn var 5,6 að stærð og átti upptök sín skammt frá Kleifarvatni á Reykjanesi. Hann fannst víða á landinu; á höfuðborgarsvæðinu, Snæfellsnesi, Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum svo fátt eitt sé nefnt.

Almannavörnum hafa borist tilkynningar um að myndir hafi fallið af veggjum og smáhlutir dottið úr hillum á Suður- og Vesturlandi þegar skjálftinn reið yfir. Þá hafa notendur á samfélagsmiðlum einnig greint frá slíkum tilfæringum lausamuna, auk þess sem vörur hafa víða fallið úr hillum verslana.

Líkt og áður segir hafa þó engar tilkynningar borist almannavörnum um slys á fólki eða tjón á mannvirkjum.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fylgist vel með framvindu mála í samvinnu við lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi auk Veðurstofunnar. Lögreglumenn munu fara um svæðið, meðal annars í Krýsuvík, til að kanna áhrif skjálftans.

Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu síðan 26. janúar.


Tengdar fréttir

Allt skalf og nötraði hjá þríeykinu sem hélt kúlinu

Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason voru saman á fundi í húsakynnum Landlæknis í Katrínartúni 2, Höfðatorgsturninum, þegar stór skjálfti reið yfir suðvesturhornið klukkan 13:43.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×