Körfubolti

Barack Obama er stoltur af LeBron James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James heimsótti Barack Obama í Hvíta húsið eftir að Miami Heat vann NBA titilinn en mun aldrei mæta til Donald Trump.
LeBron James heimsótti Barack Obama í Hvíta húsið eftir að Miami Heat vann NBA titilinn en mun aldrei mæta til Donald Trump. Getty/Mark Wilson

Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, sendi körfuboltamanninum LeBron James flotta kveðju á samfélagsmiðlum eftir sigur Los Angeles Lakers í NBA-deildinni á sunnudagskvöldið..

LeBron James fór fyrir liði Los Angeles Lakers sem vann sinn fyrsta NBA meistaratitil i áratug en þetta var annað tímabil James hjá félaginu. Lakers vann 4-2 sigur á Miami Heat í úrslitaeinvíginu og var LeBron með þrennu í lokaleiknum.

Barack Obama hrósaði LeBron James fyrir afrekið en ekki bara fyrir frammistöðuna inn á vellinum heldur einnig fyrir frammistöðuna utan vallar.

Barack Obama congratulates LeBron James

Posted by Basketball Forever on Mánudagur, 12. október 2020

„Stoltur af vini mínum LeBron James,“ byrjaði Barack Obama kveðju sína og hélt svo áfram:

„Vann sinn fjórða NBA titil og var kosinn mikilvægastur í lokaúrslitunum í fjórða sinn. Ég er ekki aðeins stoltur af honum fyrir að standa undir öllum væntingunum á sautján tímabilum sínum í deildinni heldur gera enn betur sem stórbrotinn leiðtogi innan sem utan vallar. Utan vallar með því að berjast fyrir menntun, félagslegu réttlæti og lýðræði okkar,“ skrifaði Barack Obama.

LeBron James hefur alltaf talað fyrir mikilvægum málum í samfélaginu og hefur líka látið verkin tala eins og með því að setja á laggirnar skólann „I Promise School“, í Akron sem opnaði í júlí 2018. Skólinn er hugsaður fyrir yngri krakka sem hafa átt í erfiðleikum með að haldast í skólakerfinu.

James hefur líka verið í fararbroddi í jafnréttisbaráttu svartra og talað mikið fyrir því að allir nýti kosningarréttinn sinn í komandi forsetakosningum.


Tengdar fréttir

Brady sendi LeBron hamingjuóskir

Hamingjuóskum hefur rignt yfir lið Los Angeles Lakers eftir að þeir urðu NBA-meistarar í nótt og þá sérstaklega LeBron James.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×