Fótbolti

Sch­meichel vonar að danska liðið komi í veg fyrir að Ís­land nýti styrk­leika sína

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Schmeichel í leiknum gegn Færeyjum á miðvikudaginn var.
Schmeichel í leiknum gegn Færeyjum á miðvikudaginn var. Lars Ronbog/Getty Images

Kasper Schmeichel, markvörður danska landsliðsins og Leicester City í ensku úrvalsdeildinni, er spenntur fyrir leik Íslands og Danmerkur í Þjóðadeildinni annað kvöld. Hinn 33 ára gamli Dani býst við hörkuleik en segir að danska landsliðið sé tilbúið og hungrað í sigur.

Líkt og Ísland hefur Danmörk ekki enn náð sigri. Liðið gerði markalaust jafntefli við England og tapaði fyrir Belgum. Schmeichel var milli stanganna í báðum leikjum liðsins og verður það einnig á morgun. Hann hefur alls spilað 56 leiki fyrir A-landslið Dana og er því töluvert á eftir þeim fjölda sem faðir hans Peter náði á sínum tíma.

Schmeichel eldri lék 129 landsleiki og gerði í þeim eitt mark.

„Við búumst við mjög erfiðum leik. Ég held að allir sem hafi horft á íslenska liðið spila undanfarin ár viti að þeir eru mjög gott lið sem er erfitt að spila gegn. Úrslitin sem þeir hafa náð sýna það og sanna,“ sagði Schmeichel yngri um leik morgundagsins.

„Þeir hafa sína styrkleika en það gerum við einnig. Þeir munu eflaust ætla sér að nýta styrkleika sína en við höfum séð þá og vonandi undirbúið okkur nægilega vel til að koma í veg fyrir að íslenska liðið nái að nýta þá að neinu viti. Það er svo sem ekkert nýtt, það eru mörg lið sem eru sterk líkamlega og við höfum allir mætt slíkum liðum í gegnum tíðina, sagði markvörðurinn einnig.

„Það má búast við liði sem er tilbúið frá fyrstu mínútu. Það má búast við liði sem er mjög hungrað í sigur og mun gera allt til að vinna. Einnig má búast við liði sem er tilbúið að leggja mikið á sig og þá er það eiginlega upptalið,“ sagði Scheimchel að lokum.

Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18.45 annað kvöld í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Upphitun hefst klukkutíma fyrr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×