Enski boltinn

Aftur aga­vanda­mál hjá enska lands­liðinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Abraham, Sancho og Chilwell verða ekki í hópnum hjá Englandi í komandi leikjum.
Abraham, Sancho og Chilwell verða ekki í hópnum hjá Englandi í komandi leikjum. vísir/getty

Tammy Abraham, Ben Chilwell og Jadon Sancho verða ekki í leikmannahópi enska landsliðsins er liðið mætir Wales á fimmtudaginn.

Þremenningarnir voru allir viðstaddir teiti sem var haldið til heiðurs afmælis Abrahams en það braut gegn reglum breskra stjórnvalda.

Samkomubannið hljóðar upp á sex aðila í Englandi og voru mikið fleiri í afmælinu en sex. Talið er að tuttugu manns hafi verið í afmælinu.

Sancho, Abraham og Chilwell hafa beðist afsökunar á atvikinu og segjast læra af atvikinu en enska knattspyrnusambandið bað þá um að mæta ekki á St. George's Park, æfingasvæði Englendinga, í gær.

Leikmenn Englands voru prufaðir fyrir kórónuveirunni í gær og er ekki líklegt að þessir þrír verði kallaðir inn í hópinn eftir að hafa misst af prófunum.

England mætir Wales í æfingaleik á fimmtudaginn áður en þeir mæta Belgum og Dönum í Þjóðadeildinni. Abraham, Chilwell og Sancho verða ekki með á fimmtudaginn en óvíst er hvort að þremenningarnir verði kallaðir inn fyrir þann leik.

Þetta er í annað skipti á innan við mánuði sem leikmenn enska landsliðsins gera sig seka um brot á reglum en eins og frægt var þá brutu Phil Foden og Mason Greenwood reglur um vinnustaðasóttkví hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×