Körfubolti

Að­eins ein krafa og hún er að KR verði Ís­lands­meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Darri Freyr Atlason er kominn heim og hans bíður erfitt verkefni í vetur.
Darri Freyr Atlason er kominn heim og hans bíður erfitt verkefni í vetur. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Nýr þjálfari KR – Darri Freyr Atlason – var umræðuefni í upphitunarþætti Domino´s Körfuboltakvölds fyrir komandi leiktíð. Sérfræðingar þáttarins telja að Darri – og liðið sjálft – verði að berjast um titilinn til að standast væntingar.

Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, spurði þá Benedikt Guðmundsson og Hermann Hauksson – sem hafa tengst KR á einn eða annan hátt undanfarin ár – hvað það þýðir að vera þjálfari KR og hvaða pressa er komin á Darra Frey.

„Ég hef þjálfað þarna og ég get sagt ykkur að það er ætlast til að titillinn komi í hús. Það er bara ein krafa og það er að liðið verði Íslandsmeistari. Það vill enginn vera fyrsti þjálfarinn í tæp 10 ár sem stöðvar þessa sigurgöngu. Darri talar þannig í viðtölum, hann veit alveg upp á hvað hann var að skrifa,“ sagði Benedikt áður en Hermann greip orðið.

„Darri er náttúrulega alinn upp í þessu umhverfi, hann er fæddur 1994 og spilaði með Matthíasi Orra [Sigurðarsyni] og Marteini [Hermannssyni, atvinnumanni hjá Valencia]. Var með þeim í drengja landsliðum svo hann veit alveg út á hvað þetta gengur; að koma inn sem KR þjálfari. Hann er mögulega að koma inn í erfiðasta umhverfið í augnablikinu sem þjálfari KR.“

Kjartan Atli spurði Hermann hvort Darri Freyr gæti notað það sem afsökun að missa leikmenn á borð við Kristófer Acox og Jón Arnór Stefánsson.

„Mér finnst það ódýr afsökun. Með réttri viðbót og þeim sterka kjarna sem fyrir er þá er Íslandsmeistaratitill það sem þeir stefna á.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Aðeins ein krafa og hún er að KR verði Íslandsmeistari

KR hefur leik í Domino´s deild karla á heimavelli í kvöld er Njarðvík mætir í Vesturbæinn.  Leikurinn hefst klukkan 20.15 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 3.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×