Innlent

Telur að línurnar skýrist í dag eða á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að línurnar skýrist varðandi aðgerðapakka til að koma til móts við þá stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði í dag eða á morgun. 

Formenn stjórnarflokkanna funduðu með Samtökum atvinnulífsins í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun. Til stóð að aðildarfyrirtæki SA myndu byrja að greiða atkvæði um hvort rifta eigi lífskjarasamningnum síðdegis í dag en atkvæðagreiðslunni hefur verið frestað þangað til á hádegi á morgun. Frá þessu greindi Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA eftir fundinn í morgun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Sunnu Sæmundsdóttur fréttamann eftir fundahöld morgunsins að þar hefði verið farið yfir stöðuna.

„Við vorum að fara áfram yfir vangaveltur um það hvort stjórnvöld geti greitt fyrir því að ekki komi hér til átaka á vinnumarkaði og við ætlum bara að vinna áfram að þeim samtölum,“ sagði Katrín.

Innt eftir því hvort stjórnvöld hyggist kynna aðgerðapakka til að bregðast við stöðunni sem upp er komin sagði Katrín að viðræður væru í gangi.

„Við erum bara í samtali og ætli línurnar skýrist ekki í dag eða á morgun.“ Horfa yrði til þess hverju samtöl dagsins skili.

„Eins og ég hef sagt ítrekað og skýrt tel ég að átök á vinnumarkaði verði ekki til góðs fyrir íslenskt samfélag á þessum tímapunkti og ekki á það bætandi eins og staðan er í samfélaginu,“ sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×