Körfubolti

Kristófer þarf að treysta á hraðar hendur nefndarmanna

Sindri Sverrisson skrifar
Kristófer Acox var kynntur sem nýr leikmaður Vals á dögunum en er ekki kominn með félagaskipti frá KR.
Kristófer Acox var kynntur sem nýr leikmaður Vals á dögunum en er ekki kominn með félagaskipti frá KR. vísir/skjáskot

Kristófer Acox þarf að treysta á að aga- og úrskurðanefnd KKÍ hafi hraðar hendur í vikunni, og úrskurði honum í vil, svo hann geti leikið með Val gegn Stjörnunni á föstudagskvöld.

Vistaskipti Kristófers frá KR til Vals hafa ekki gengið þrautalaust fyrir sig eins og Vísir hefur fjallað ítarlega um. Landsliðsmaðurinn telur körfuknattleiksdeild KR skulda sér milljónir króna vegna vangoldinna launa en því er stjórn deildarinnar síður en svo sammála.

KR-ingar neituðu að skrifa undir félagaskipti Kristófers til Vals og nú er spurning hvort hann fær þau í gegn áður en Valur mætir Stjörnunni í stórleik í 1. umferð Dominos-deildarinnar á föstudagskvöld.

Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur KR frest þar til á morgun til að skila inn gögnum til aga- og úrskurðanefndar vegna málsins. Nefndin ætti því að hafa fengið öll gögn í hendurnar annað kvöld eða á miðvikudag, og þarf að vinna úr þeim áður en hún tekur ákvörðun í málinu. Ekki mun því enn vera ljóst hvenær nefndin fundar.

Samningi Kristófers við KR var ekki skilað inn til KKÍ og á þeim forsendum virðist því útlit fyrir að nefndin heimili félagaskipti hans, líkt og í tilviki Kristins Marinóssonar sem fór frá Haukum til ÍR árið 2016. Spurningin er þó hvenær.


Tengdar fréttir

Sakar Kristófer um að leyna meiðslum

Páll Kolbeinsson, gjaldkeri körfuknattleiksdeildar KR, segir Kristófer Acox hafa leynt meiðslum þegar hann skrifaði undir samning við félagið í fyrrasumar. Þessu hafnar Kristófer alfarið og gögn sýna að þáverandi þjálfari KR vissi að hann væri meiddur.

Kristófer segir KR skulda sér milljónir

Kristófer Acox kveðst eiga inni háa upphæð hjá körfuknattleiksdeild KR vegna vangreiddra launa. Hann hefur leitað til lögfræðings til að freista þess að fá upphæðina greidda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×