Körfubolti

Sportpakkinn: „Á ekki von á því að við klárum tímabilið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hjalti Vilhjálmsson er þjálfari Keflavíkur.
vísir/skjáskot

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, vonast til þess að Dominos-deildin byrji aftur eftir fjórar vikur en efast um að það verði raunin.

Fjögurra vikna hlé hefur verið gert á deildinni vegna kórónuveirunnar og það ríkir mikil óvissa í körfuboltanum eins og í öðrum íþróttum sem og samfélaginu öllu.

Stjórn KKÍ hefur blásið nokkrar keppnir af en ákvörðun um efstu tvær deildir karla og kvenna verður tekin á fundi á miðvikudag.

„Auðvitað vilja allir klára tímabilið og ég vona það en miðað við hvernig þetta er að fara í heiminn þá á ég ekki von á því að við klárum tímabilið,“ sagði Hjalti við Guðjón Guðmundsson.

„Nú er fjögurra vikna pása og það er búið að gefa það út. Flestir munu taka væntanlega frí núna í tvær vikur og senda útlendingana heim. Svo verður byrjað aftur eftir tvær vikur og menn þurfa að halda sér í formi. Svo höldum við áfram og sjáum til hvort að þetta byrji aftur eða ekki.“

Keflavík er með fjóra útlendinga í sínum röðum og Hjalti segir að það sé hausverkur.

„Þetta er svo mikil óvissa og ég á ekki von á því að þetta byrji eftir fjórar vikur þó að menn hafi einhverja hugmynd um að það gæti gerst. Ég sé ekki annað í stöðunni en að senda þá heim. Svo veit maður ekki varðandi sóttkví.“

„Þegar menn koma aftur, þurfa þeir þá að byrja á því að fara í tveggja vikna sóttkví eða hvort að því verði slaufað. Ég hugsa að við leyfum þeim að fara heim.“

Félögin verða fyrir miklu tekjutapi verði hætt við deildina.

„Úrslitakeppnin er þar sem peningurinn er. Heimaleikur í úrslitakeppni er örugglega tvær og hálf milljón og það skiptir mjög miklu máli. Ekkert lið í úrvalsdeildinni í dag er það vel stætt fjárhagslega og það skiptir máli að fá pening inn í úrslitakeppninni. Svo veit maður ekki hvernig þetta verður,“ sagði Hjalti.

Klippa: Sportpakkinn: Hjalti um fríið í Dominos-deildinni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×