Innlent

Kynna breytingar á meiri­hluta­sam­starfi í bæjar­stjórn Akur­eyrar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þrír flokkar mynda nú meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar.
Þrír flokkar mynda nú meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórn Akureyrar hefur boðað til blaðamannafundar í Hofi klukkan 12 í dag þar sem kynna á breytingar á meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn.

L-listinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin mynda núverandi meirihluta. Vikublaðið hefur heimildir fyrir því að mynduð verði nokkurs konar samstjórn þar sem allir flokkar koma að borðinu vegna slæms reksturs bæjarins.

Vísir náði tali af Guðmundi Baldvin Guðmundssyni, oddvita Framsóknarflokksins og formanni bæjarráðs, áður en hann steig upp í flugvél á leið til Reykjavíkur.

Hann vildi ekki tjá sig um hvað væri í vændum en sagði að hann yrði ekki á fundinum í hádeginu. Þá benti hann á Höllu Björk Reynisdóttur, oddvita L-listans og forseta bæjarstjórnar, en Vísir hefur ekki náð tali af henni í morgun.

Vísir hefur heldur ekki náð í Hildu Jönu Gísladóttur, oddvita Samfylkingarinnar, eða Gunnar Gíslason, oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem er stærsti flokkurinn í minnihluta bæjarstjórnar.

Ásthildur Sturludóttir er faglega ráðin sem bæjarstjóri Akureyrar. Vísir hefur ekki náð tali af henni nú í morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×