Erlent

Fyrsta mannaða geimferðin frá Bandaríkjunum í áratug

Kjartan Kjartansson skrifar
Geimfararnir Bob Behnken (t.h.) og Doug Hurley (t.v.) urðu fyrir valinu í jómfrúarferð Dragon-geimferju SpaceX með menn innanborðs. Báðir eru þeir hoknir af reynslu í geimferðum og eru giftir geimförum.
Geimfararnir Bob Behnken (t.h.) og Doug Hurley (t.v.) urðu fyrir valinu í jómfrúarferð Dragon-geimferju SpaceX með menn innanborðs. Báðir eru þeir hoknir af reynslu í geimferðum og eru giftir geimförum. AP/Alex Gallardo

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti í dag að fyrsta mannaða geimferðin í geimferju SpaceX verði farin í næsta mánuði. Það verður fyrsta mannaða geimferðin frá Bandaríkjunum frá því að geimskutluáætlunin leið undir lok fyrir tæpum tíu árum.

Dragon-geimferja SpaceX á að hafa sig á loft frá Canaveral-höfða á Flórída 27. maí. Henni verður skotið á loft með Falcon 9-eldflaug sama fyrirtækis og verður stefnan tekin á Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu.

Eftir að geimskutluáætluninni lauk árið 2011 hafa Bandaríkjamenn þurft að reiða sig á Soyuz-geimferjur Rússa til að koma geimförum til og frá geimstöðinni.

NASA samdi við SpaceX og Boeing um að smíða geimferjur sem gætu flutt menn. Ferðin í næsta mánuði verður fyrsta mannaða geimferð SpaceX. Um borð verða tveir reyndir geimfarar, þeir Bob Behnken og Doug Hurley. Sá síðarnefndi flaug með síðustu bandarísku geimskutlunni árið 2011.

Boeing hefur átt í erfiðleikum með Starliner-geimferju sína. Í tilraunaflugi hennar í desember tókst ferjunni ekki að tengjast Alþjóðalegu geimstöðinni. Til stendur að prófa ferjuna aftur án geimfara áður en haldið verður áfram með áform um mannaðar ferðir.

Sjá einnig: Boeing lenti geimfari sem hlekktist á

Ekki liggur fyrir hversu lengi þeir Behnken og Hurley verða um borð í geimstöðinni. Washington Post segir líklegt að dvöl þeirra verði framlengd frá því sem upphaflega var áætlað vegna tafa og vandræða við mannaðar ferðir SpaceX og Boeing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×