Innlent

Síðustu saumsporin tekin í Njálurefilinn á Hvolsvelli

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það voru þær Gunnhildur E. Kristjánsdóttir (t.h.) og Christina M. Bengtson sem fóru af stað með verkefnið og áætluðu að vera um 10 ár að sauma refilinn. Hér eru þær, ásamt Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra Rangárþings eystra, sem færði hópnum í Refilstofunni blóm frá sveitarfélaginu og þakkaði fyrir þeirra framlag í þágu menningar í sveitarfélaginu.
Það voru þær Gunnhildur E. Kristjánsdóttir (t.h.) og Christina M. Bengtson sem fóru af stað með verkefnið og áætluðu að vera um 10 ár að sauma refilinn. Hér eru þær, ásamt Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra Rangárþings eystra, sem færði hópnum í Refilstofunni blóm frá sveitarfélaginu og þakkaði fyrir þeirra framlag í þágu menningar í sveitarfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Síðustu saumsporin í Njálureflinn á Hvolsvelli hafa verið tekin og hefur reflinum verið rúllað upp og þess er nú beðið að hann verður settur upp í sýningarsal á staðnum. Upphaflega var gert ráð fyrir að það tæki tíu ár að sauma refilinn, sem er um 90 metra langur en verkið gekk svo vel að það tók ekki nema sjö ár og sjö mánuði að ljúka verkinu.

Nokkrar vaskar konur á Hvolsvelli komu saman í vikunni til að sauma síðustu sporin í Njálurefilinn en verkið hófst 2. febrúar 2013 þegar Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari tók fyrsta saumsporið. Síðan þá hafa fjölmargir Íslendingar og útlendingar komið við í refilstofunni og saumað nokkur spor í refilinn, sem er rúmlega 90 metra langur og 50 sentímetra breiður og segir Brennu-Njálssögu. Það voru þær Gunnhildur E. Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtson sem fóru af stað með verkefnið.

Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari tók fyrstu sporin í refilinn 2. febrúar 2013.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„Það sem stendur upp úr er gleðin og vinsemdin, hvað þetta hefur allt gengið vel, öll jákvæðnin í kringum verkefni. Ég hef verið með ótrúlega flottar og skemmtilegar konur með okkur Christinu í þessu verkefni,“ segir Gunnhildur.

En hvað gerist núna, ætla konurnar að fara bara heim og leggist í sófann?

„Nei, en það er svolítið leyndarmál enn þá hvað við ætlum að gera, við skulum bara segja þér það næst, í næsta viðtali,“ segir Gunnhildur og hlær.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra heiðraði konurnar og verkefnið þeirra með fallegum blómvendi frá sveitarstjórn enda allir íbúar sveitarfélagsins mjög stoltir af refilverkefninu.

Konurnar á Hvolsvelli hjálpuðust við að rúlla reflinum upp eftir að þær höfðu tekið síðustu saumsporin í hann.Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„þetta er bara yndisleg stund, hér sitja frábærar konur, sem eru búnar að halda hópinn í sjö ár og sjö mánuði í þessu frábæra verkefni. Það stóð nú til að saumaskapurinn tæki tíu ár en eins og þú sérð þá eru þetta miklir dugnaðarforkar,“ segir Lilja.

Njálureflinum verður fljótlega komið fyrir í fallegu sýningarími á Hvolsvelli en það er enn leyndarmál hvar það rými verður.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir, listamaður er hönnuður verksins og var hún að sjálfsögðu viðstödd þegar síðustu metrunum var rúllað upp.Magnús Hlynur Hreiðarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×