Innlent

Frábær sprettutíð í sumarlok bjargar kartöfluuppskerunni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ, á kartöfluakrinum í kvöld.
Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ, á kartöfluakrinum í kvöld. Stöð 2/Einar Árnason.

Kartöflubændur í Þykkvabæ þakka hlýindum og vætu í sumarlok það að nú stefni í bærilega uppskeru eftir kuldatíð langt fram eftir sumri. Þetta kom fram í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 af kartöfluakrinum í Rangárvallasýslu í kvöld þar sem rætt var við Sigurbjart Pálsson kartöflubónda en uppskerutími stendur nú sem hæst.

Útlitið með kartöflusprettu í Þykkvabæ var hreint ekki gott fram eftir sumri en þaðan er áætlað að um 70 prósent af kartöfluframleiðslu landsins komi.

„Það var kalt vor og erfitt og ætlaði aldrei að hlýna. Einhvernveginn í minningunni er samt búið að vera ágætis veður í sumar. En það var bara alltaf svo kalt. Og fyrri hlutinn í ágúst bara sá kaldasti í manna minnum,“ sagði Sigurbjartur en hann var við kartöfluupptöku ásamt eiginkonu sinni, Jóhönnu Lilju Þrúðmarsdóttur, og syninum Ómari Páli.

Nýuppteknar kartöflur af akrinum í Þykkvabæ í dag. Stöð 2/Einar Árnason.

„Hefðurðu spurt mig um miðjan ágúst hvernig þetta yrði hefði ég verið mjög svartsýnn. En í dag erum við að taka upp fyrirmyndaruppskeru,“ sagði Sigurbjartur.

-Það hefur aldeilis ræst úr?

„Það hefur ræst alveg ótrúlega úr. Þessir síðustu dagar í ágúst og núna þessir fyrstu dagar í september; óskapleg sprettutíð.“

-Eruð þið kannski að fá svona með betri kartöfluárum?

„Nei, ég segi það nú kannski ekki. En þetta er alveg bærilegt ár og við getum ekkert kvartað,“ sagði Sigurbjartur en viðtalið á akrinum í heild má sjá hér í frétt Stöðvar 2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×