Enski boltinn

Látinn æfa einn eftir hótelhittinginn á Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
Mason Greenwood á ferðinni gegn Íslandi síðasta laugardag.
Mason Greenwood á ferðinni gegn Íslandi síðasta laugardag. VÍSIR/GETTY

Mason Greenwood mætti aftur til æfinga í gær hjá Manchester United, eftir strákapör sín á Íslandi, en fékk hins vegar ekki að æfa með liðsfélögum sínum.

Frá þessu greinir enska götublaðið Mirror sem segir að Greenwood hafi verið látinn æfa einn vegna mögulegrar hættu á kórónuveirusmiti, eftir að hann braut reglur um sóttkví með því að hitta íslenskar stelpur á hóteli enska landsliðsins um síðustu helgi.

Greenwood og Phil Foden, sem hittu íslensku stelpurnar eftir að hafa unnið Ísland 1-0 í Þjóðadeildinni, fengu ekki að fara áfram með enska landsliðinu til Danmerkur heldur voru sendir heim til Manchester.

Samkvæmt frétt Mirror er búist við því að Greenwood byrji að æfa með liðsfélögum sínum snemma í næstu viku.

Í frétt blaðsins segir einnig að þrátt fyrir að United hafi lýst yfir vonbrigðum með Greenwood í yfirlýsingu, þá sé ólíklegt að félagið refsi honum fyrir það sem gerðist í Íslandsförinni enda hafi hann verið þar með enska landsliðinu.

Greenwood muni því berjast um sæti í byrjunarliði United fyrir fyrsta leik liðsins á komandi tímabili, gegn Crystal Palace eftir viku. Greenwood stimplaði sig vel inn í lið United síðasta vetur með 17 mörkum.


Tengdar fréttir

Greenwood og Foden greiða 250 þúsund krónur í sekt

Mason Greenwood og Phil Foden, leikmenn enska landsliðsins, hafa lítinn áhuga á að dvelja á Íslandi stundinni lengur og má reikna með því að innan klukkustundar hafi þeir greitt 250 þúsund króna sekt fyrir brot á sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×