Fótbolti

Ögmundur: Þeir fengu alltof mikinn tíma til að athafna sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ögmundur var ekki sáttur í leikslok.
Ögmundur var ekki sáttur í leikslok. Mynd/Stöð 2 Sport

Ögmundur Kristinsson, markvörður Íslands í kvöld, var eðlilega ekki sáttur eftir 5-1 tap gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í kvöld.

„Það var nóg að gera og þeir fengu alltof mikinn tíma til að athafna sig. Með þessi gæði sem þeir hafa þá refsa þeir manni alltaf,“ sagði Ögmundur um leik kvöldsins.

„Maður er aldrei sáttur þegar maður tapar 5-1. Sama hvort eigin frammistaða sé ágæt þá er það frammistaða liðsins sem skiptir öllu máli svo maður getur ekki sagt að maður sér sáttur,“ sagði Ögmundur aðspurður út í eigin frammistöðu í kvöld en Ömmi varði oft á tíðum vel frá mögnuðu liði Belga.

„Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur. Ég veit ekki hvort boltinn fór inn eftir aukaspyrnuna eða skallann, þarf bara að sjá markið aftur,“ var svar Ögmunds þegar Henry Birgir Gunnarsson spurði hann út í svekkjandi jöfnunarmark Belga en ómögulegt var að sjá hvort boltinn hefði farið inn í sjónvarpsútsendingu.

„Ég veit ekki hvort það var komin þreyta í mannskapinn eða hvað. Þeir eru með það gott lið að það má ekki slökkva á sér í nokkrar sekúndur og þeir refsa manni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×