Enski boltinn

Southgate segir að Greenwood og Foden hafi verið barnalegir: „Mjög alvarlegt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Foden og Mason Greenwood æfðu ekki með enska landsliðinu á Laugardalsvelli í morgun og eru á leið aftur til Englands.
Phil Foden og Mason Greenwood æfðu ekki með enska landsliðinu á Laugardalsvelli í morgun og eru á leið aftur til Englands. getty/Mike Egerton

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Mason Greenwood og Phil Foden hafi verið teknir úr enska landsliðshópnum vegna brots á sóttvarnarreglum.

Greenwood og Foden fengu íslenskar stelpur upp á hótelherbergi til sín um helgina, eftir að hafa leikið sinn fyrsta landsleik þegar England sigraði Ísland, 0-1, í Þjóðadeildinni. Frá þessu var greint á 433.is.

Southgate sagði að leikmennirnir hefðu sýnt barnalega hegðun sem ekki væri hægt að afsaka með ungum aldri þeirra. Greenwood er átján ára en Foden tvítugur.

„Í morgun var mér greint frá því að strákarnir hefðu brotið sóttvarnarreglur. Við þurftum fljótlega að ákveða að þeir mættu ekki eiga nein samskipti við aðra í liðinu né fara á æfingu,“ sagði Southgate og bætti við að Greenwood og Foden myndu fljúga sér aftur til Englands. Enska liðið heldur hins vegar til Kaupmannahafnar þar sem það mætir Dönum í Þjóðadeildinni annað kvöld.

„Þetta er mjög alvarleg staða og við höfum tekist þannig á við hana. Þeir voru barnalegir og við höfum gripið til viðeigandi ráðstafana. Ég veit að þeir eru ungir en allur heimurinn er að glíma við þennan faraldur og allir bera ábyrgð.“

Southgate vildi ekki fara mikið út í það hvaða áhrif þetta hefði á framtíð þeirra Greenwoods og Fodens með enska landsliðinu.

„Það er of snemmt að segja þar til við höfum allar upplýsingar. Ég er sjálfur faðir unglinga og veit að þeir geta gert mistök. Það er ekki afsökun og við þurfum að skoða allt í framhaldinu,“ sagði Southgate.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×