Erlent

Fyrsta farþegaflugvélin frá Ísrael lent í Abu Dhabi

Samúel Karl Ólason skrifar
Embættismaður á flugvellinum í Abu Dhabi stendur við dyr flugvélarinnar eftir að henni var lent.
Embættismaður á flugvellinum í Abu Dhabi stendur við dyr flugvélarinnar eftir að henni var lent. AP/Nir Elias

Fyrsta farþegaflugið á milli Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmanna hefur átt sér stað. Flugvél sem flogið var frá Ísrael í morgun, og leyft var að fljúga í gegnum lofthelgi Sádi-Arabíu, var lent í furstadæmunum í dag. Um borð í flugvélinni voru erindrekar frá Bandaríkjunum og Ísrael, meðal annars Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Furstadæmin og yfirvöld í Ísrael samþykktu nýverið, með milligöngu Bandaríkjanna, að koma á formlegum samskiptum. Með því urðu furstadæmin þriðja arabaríkið og það fyrsta við Persaflóa sem tekur upp hefðbundin samskipti við Ísrael. Hin ríkin eru Egyptaland og Jórdanía.

Á bakvið tjöldin hafa ríkin þó um nokkuð skeið átt í samstarfi sem beinst hefur gegn Íran.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er það sömuleiðis mikill áfangi að leyfi hafi fengist til þess að fljúga flugvélinni í gegnum lofthelgi Sádi-Arabíu. Það sé til marks um samþykkt konungsríkisins á ákvörðun furstadæmisins.

Flugferðin tekur rúma þrjá tíma en ef fljúga þyrfti í kringum Sádi-Arabíu tæki hún rúma sjö tíma.

Um er að ræða fyrstu flugferð El Al flugfélagsins frá 1. júlí, vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Talsmaður flugfélagsins segir flugvélina búna eldflaugavarnarkerfi.

Flugvélin var sömuleiðis skreytt orðinu „friður“, sem hafði verið skrifað á arabísku, hebresku og ensku.

Á Ben-Gurion flugvellinum í Lod í Ísrael í morgun. Þarna má sjá erindreka frá Bandaríkjunum og Ísrael.AP/Heidi Levine



Fleiri fréttir

Sjá meira


×