Íslenski boltinn

„Væri stórt fyrir félagið að vinna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson hefur skorað níu mörk í ellefu leikjum í Pepsi Max-deild karla í sumar.
Óttar Magnús Karlsson hefur skorað níu mörk í ellefu leikjum í Pepsi Max-deild karla í sumar. vísir/daníel

Víkingur mætir Olimpija Ljubljana í dag í fyrsta Evrópuleik sínum í fimm ár. Leikurinn er í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

„Við erum bara inni á herbergi að slaka á,“ sagði Óttar Magnús Karlsson, markahæsti leikmaður Víkings á tímabilinu, þegar blaðamaður Vísis sló á þráðinn til hans í dag.

Ferðalag Víkinga er stutt og vegna kórónuveirufaraldursins þurfa leikmenn að mestu að halda sig innandyra.

„Við fáum rétt svo að fá okkur ferskt loft en annars er ætlast til þess að við séum á hótelinu. Það er bara eins og það er,“ sagði Óttar.

„Við fórum með morgunflugi í gær og æfðum á vellinum seinni partinn í gær. Svo förum við bara aftur heim eftir leikinn í kvöld.“

Óttar segir að Víkingar mæti nokkuð bjartsýnir til leiks í dag þótt þeir séu meðvitaðir um að verkefnið sé krefjandi.

„Ef við hittum á góðan dag eigum við möguleika. Þetta verður klárlega erfiður leikur,“ sagði Óttar.

Óvissa með leikform andstæðinganna

Undirbúningur Olimpija Ljubljana fyrir leikinn hefur vægast sagt verið skrautlegur en leikmannahópur liðsins þurfti að fara í sóttkví eftir að þrír leikmenn þess greindust með kórónuveiruna.

„Það hafa orðið einhverjar breytingar á leikmannahópi þeirra og þeir hafa ekki spilað eða æft í einhvern tíma út af smitum. Þetta er mjög sterkt lið og þetta verður hörkuleikur en við vitum ekki alveg hvernig þeir standa varðandi leikform. Það kemur í ljós,“ sagði Óttar.

Víkingar unnu sér þátttökurétt í Evrópudeildinni með því að verða bikarmeistarar í fyrra.vísir/bára

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur fyrirkomulaginu í Evrópudeildinni verið breytt. Nú er bara einn leikur í hverri umferð forkeppninnar í stað tveggja áður. En gefur það Víkingi aukna möguleika?

„Það er erfitt að segja en möguleika er það svo. Ég hef s.s. lítið pælt í því. Maður reynir bara að gera það besta úr stöðunni,“ sagði Óttar.

Þetta verður veisla

Víkingur hefur ekki enn unnið Evrópuleik í sögu félagsins. Óttar segir að stefnan sé sett á að breyta því í Ljubljana í dag.

„Það eru komin nokkur ár síðan við spiluðum síðast í Evrópukeppni og það væri stórt fyrir félagið og okkur í liðinu að vinna. Það er góð stemmning í hópnum og ég skynja það þannig að menn séu til í slaginn. Þetta verður bara veisla,“ sagði Óttar.

Leikur Olimpija Ljublana og Víkings hefst klukkan 16:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×