Sara Björk í úr­slita­leik Meistara­deildarinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Björk var baráttuglöð, eins og vanalega, í leiknum í kvöld.
Sara Björk var baráttuglöð, eins og vanalega, í leiknum í kvöld. vísir/getty

Sara Björk Gunnarsdóttur og samherjar hennar í Lyon eru komnar í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir 1-0 sigur á öðru frönsku liði, PSG, í síðari undanúrslitaleiknum í kvöld.

Sara Björk mun því mæta sínu gamla liði, Wolfsburg, í úrslitaleiknum sem fer fram á sunnudaginn.

Hafnfirðingurinn var í byrjunarliði Lyon í leiknum og hún var nálægt því að koma Evrópumeisturunum yfir í fyrri hálfleik en inn vildi boltinn ekki.

Staðan var markalaus í hálfleik og allt þangað til á 67. mínútu. Grace Geyoro gerðist þá brotleg og fékk sitt annað gula spjald og PSG þurfti að leika tíu það sem var eftir leiksins.

Aukaspyrnan fór beint á kollinn á hinni ótrúlega sterku Wendie Renard sem stangaði boltann í netið. Sara og samherjar komnar yfir er rúmar tuttugu mínútur voru eftir.

Nikita Parris gerðist brotleg stundarfjórðungi fyrir leikslok á gulu spjaldi og fékk sitt annað gula spjald. Því var á ný jafnt í liðum.

Ekki urðu mörkin fleiri og lokatölur 1-0 sigur Lyon sem er komið í enn einn úrslitaleikinn.

Sara Björk spilaði allan leikinn fyrir Lyon og átti góðan leik á miðjunni. Landsliðsfyrirliðinn komst vel frá sínu.

Þetta verður annar úrslitaleikur Söru í Meistaradeildinni en hún spilaði einmitt með Wolfsburg gegn Lyon árið 2018. Þar meiddist hún snemma leiks.

Úrslitaleikurinn á sunnudagskvöldið verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 18.00.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira