Innlent

Kannar forsendur fyrir framhaldi á hlutabótaleiðinni

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Félagsmálaráðherra kannar forsendur fyrir framhaldi á hlutabótaúrræði stjórnvalda og mögulega hækkun atvinnuleysisbóta. Hann kynnir eftir helgi aðgerðir þar sem langtíma atvinnulausum verður heimilt að fara í nám án þess að missa atvinnuleysisbætur.

Almennt atvinnuleysi í júlí var 7,9% samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

 6400 manns hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur og 2500 manns eru á hlutabótaleið stjórnvalda. Það úrræði rennur að óbreyttu út um mánaðarmótin.

Alþýðusamband Íslands sendi í gær frá sér ályktun þar sem meðal annars er lagt er til að atvinnuleysisbætur hækki í 318 þúsund krónur á mánuði og hlutabótaleið stjórnvalda verði framlengt til 1. júní á næsta ári.

„Við erum núna að fara yfir gagnvart atvinnuleysistryggingum atriði eins og hlutabætur og framhald þeirra. Í kjölfarið verða ýmis önnur atriði til skoðunar eins og til dæmis hækkun atvinnuleysisbóta. Það kann að vera að þetta verði sett fram á haustþingi“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.

Ásmundur segir jafnframt að verið sé að undirbúa aðgerðir þar sem langtímaatvinnulausir geti farið í nám án þess að missa bætur. Um er að ræða atvinnu-og menntaúrræði sem nefnist Nám er vinnandi vegur II en eftir bankahrunið var farið í sams konar átak. Þar verða atvinnuleitiendur hvattir til að hefja formlegt starfs og tækninám í framhaldsskólum og skólum á háskólastigi.

„Það hefur verið fullur einhugur í ríkisstjórninni um þetta og við eigum von á því að þetta verði kynnt í næstu viku,“ segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×