Innlent

Smit hjá starfsmanni hótels þar sem ríkisstjórnin borðaði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ekki var talið tilefni til að ráðherrar gerðu sérstakar ráðstafanir vegna smitsins.
Ekki var talið tilefni til að ráðherrar gerðu sérstakar ráðstafanir vegna smitsins. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður hótels á Suðurlandi, þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar dvöldust í hádeginu á þriðjudag, greindist með kórónuveiruna í dag. Starfsmaðurinn var ekki að þjónusta ráðherrana þar sem þeir snæddu. Smitrakning vegna smitaða starfsmannsins er í fullum gangi.

Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins. Þar er haft eftir Róberti Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, að samráð hafi verið haft við sóttvarnalækni vegna málsins og ekki verið talin ástæða til þess að ráðherrarnir gerðu sérstakar ráðstafanir vegna smitsins.

Þá er haft eftir Róberti að umræddur starfsmaður hafi ekki komið inn í salinn þar sem ríkisstjórnin sat til borðs.

Haft er eftir Kjartani Hreini Njálssyni, aðstoðarmanni landlæknis, að smitrakning sé nú í gangi, líkt og venjan er þegar kórónuveirusmit greinast.

Starfsmaðurinn er sagður hafa veikst í morgun. Sýni hafi verið tekið úr honum um hádegisbil og því komið til Reykjavíkur. Niðurstaða hafi legið fyrir síðdegis.

Hótel Rangá lokað tímabundið

Í frétt RÚV kemur fram að umrætt hótel sé Hótel Rangá. Tilkynning frá eiganda hótelsins rennir stoðum undir þá fullyrðingu.

Í tilkynningu frá Friðrik Pálssyni, eiganda Hótel Rangár,  kemur fram að smit hafi greinst á hótelinu. Smitrakning sé nú í gangi.

„Vegna þessa verður hótelið lokað næstu daga á meðan umfang er upplýst og sótthreinsun fer fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×