Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Víkingur 1-1 | Enn bíða Fjölnismenn eftir sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingur - ÍA, Pepsi Max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti.
Víkingur - ÍA, Pepsi Max deild karla. Sumar 2020. Knattspyrna, fótbolti.

Fjölnismenn þurfa enn að bíða fyrsta sigurs síns í Pepsi Max-deild karla í fótbolta eftir að Adam Ægir Pálsson tryggði Víkingi R. 1-1 jafntefli í Grafarvogi í kvöld.

Fjölnir komst yfir með glæsimarki Hallvarðs Óskars Sigurðssonar á 33. mínútu en Adam Ægir, sem kom til Víkings frá Keflavík á dögunum, jafnaði metin með sínu fyrsta marki í efstu deild þegar um fimm mínútur voru eftir.

Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik en Víkingar, sem áttu reyndar stangarskot úr aukaspyrnu snemma leiks, áttu í mestu vandræðum með að halda boltanum og byggja upp sóknir vel fram í seinni hálfleik.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var á meðal örfárra áhorfenda í stúkunni þar sem hann tók út leikbann, og andvarpaði oft duglega yfir illa ígrunduðum og lélegum sendingum sinna manna. Það var í samræmi við gang leiksins sem Hallvarður skoraði markið sitt og Fjölnir í góðum málum í hálfleik.

Víkingar virkuðu of óþolinmóðir framan af seinni hálfleik en þegar rúmar 20 mínútur voru eftir fór sókn þeirra að þyngjast verulega og þeir sköpuðu sér fín færi. Pressan jókst sífellt og Fjölni tókst ekki að nýta þau örfáu tækifæri sem gáfust til að sækja hratt gegn fámennri vörn gestanna.

Eftir jöfnunarmarkið fengu bæði lið færi til að skora sigurmarkið en þau gengu þess í stað bæði svekkt af velli – Víkingar enn fjær toppbaráttu og Fjölnismenn áfram í leit að fyrsta sigrinum.

Af hverju varð jafntefli?

Fjölnismenn léku betur í fyrri hálfleiknum en Víkingar náðu að setja upp góða pressu í seinni hluta seinni hálfleiks og verðskulduðu jöfnunarmark.

Hverjir stóðu upp úr?

Enginn með stórleik í dag en Grétar Snær og Guðmundur Karl voru afar vinnusamir og virkir í spili Fjölnis, Atli Gunnar átti eina frábæra markvörslu undir lokin og Peter Zachan og Hans Viktor voru góðir í vörninni. Hjá Víkingum var fátt um fína drætti. Viktor Örlygur og Erlingur voru reyndar mjög áberandi en vantaði báða að fara betur með boltann á ögurstundu við mark Fjölnismanna. Adam Ægir má vera stoltur af sinni innkomu.

Hvað gekk illa?

Víkingsliðið hélt boltanum afar illa stærstan hluta leiksins. Júlíus lék í vörn Víkings við hlið Sölva og hvorugur átti góðan leik, þó að Sölvi taki alltaf sína skallabolta. Júlíus átti mjög slaka sendingu úr vörninni í aðdraganda marks Fjölnis, þó að margt hafi átt eftir að gerast, og þó að Viktor sé nefndur hér að ofan átti hann einnig nokkrar slakar og ótímabærar sendingar. Að sama skapi bakkaði Fjölnisliðið of mikið á lokakaflanum og hafði ekki kraftinn til að refsa með skyndisóknum.

Hvað gerist næst?

Víkingar halda í næstu viku til Slóveníu, ef allt gengur að óskum, og mæta þar Olimpija Ljubljana næsta fimmtudag. Slóvenska liðið hefur verið í sóttkví frá 10. ágúst og ekki getað æft. Næsti deildarleikur Víkings er gegn FH í Kaplakrika eftir tíu daga. Fjölnismenn sækja Fylki heim í Árbæinn næsta þriðjudag og fá svo Breiðablik í heimsókn eftir tíu daga.

Ásmundur: Dæmigert fyrir sumarið hjá okkur

„Við erum eins og oft svekktir með lokaniðurstöðuna en þetta var frábær frammistaða heilt yfir. Þetta var gott svar við síðasta leik, þar sem við vorum mjög óánægðir með okkur. Við leiddum leikinn lengst af, og nánast alveg til loka, en það er kannski dæmigert fyrir sumarið hjá okkur að markið sem þeir skora er í ódýrari kantinum. Boltinn var á leið út af, það hættu allir, en það kom snúningur á hann og auðvelt mark í framhaldi af því,“ segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.

„Með svona frammistöðu koma fleiri stig. Þetta er eitthvað sem við getum byggt ofan á. Þetta er fyrsta stigið okkar á heimavelli í sumar og það langlengsta sem við höfum verið yfir í leik,“ segir Ásmundur.

Lið sem hefur ekki fagnað sigri í deildarleik síðan á síðasta ári hlýtur að vera farið að finna aðeins fyrir því. Vantaði sjálfstraust til að klára dæmið þegar Víkingar fóru að pressa á lokakaflanum?

„Já, kannski. Alla vega fóru menn svolítið að verja stöðuna og féllu fullaftarlega. Það þarf að halda sjó þegar það er búið að ganga illa í langan tíma, langt liðið frá sigri, og þegar menn sjá að það sé að fara að gerast þá verða þeir kannski aðeins of hikandi. Það er bara eitt atvik sem verður til þess að við fáum eitt stig en ekki þrjú.“

Sigurpáll Melberg Pálsson fór meiddur af velli eftir fyrri hálfleik og Ásmundur sagði frá því fyrir leik að Torfi Tímoteus Gunnarsson hefði verið meira og minna meiddur í allt sumar, og að ekki væri von á honum fyrr en eftir landsleikjahléið í september. Fjölnir missti báða aðalmiðverði sína frá síðasta tímabili.

„Örvar [Eggertsson, sem kom frá Víkingi] mátti ekki spila í kvöld svo hann kemur alla vega inn í næsta leik. Við eigum menn til að spila,“ segir Ásmundur um ástandið.

Einar: Erum alla vega ekki að fara í neina menningarferð

„Ég er mjög svekktur með úrslitin,“ segir Einar Guðnason, sem stýrði Víkingi í kvöld í fjarveru Arnars.

„Við sköpuðum okkur nú ágætis færi eftir einhverjar fimm mínútur og áttum svo stangarskot, en svo var lítið að frétta. Svo fengum við þetta mark á okkur upp úr horni, sem er ekki nýtt, en við sköpuðum ekki nóg.

Í seinni hálfleik vorum við líka seinir í gang, en herjuðum svo síðari hlutann á þá heldur betur. Við hefðum mátt nýta færin töluvert betur. Það vantaði í lokin, en framan af vantaði meiri hraða og hreyfanleika – að menn fyndu svæðin sín,“ segir Einar.

Halldór Smári Sigurðsson kom inn á sem varamaður í leiknum í stað Júlíusar Magnússonar, sem er að upplagi miðjumaður en lék sem miðvörður.

„Halldór var kannski ekki alveg tilbúinn í 90 mínútur en hann var tilbúinn í hálftíma, til að viðra hann aðeins fyrir Slóveníuferðina,“ segir Einar en Kári Árnason á við meiðsli að stríða.

Víkingar eru í 7. sæti, átta stigum á eftir toppliði Vals sem á auk þess leik til góða. Öll von um að berjast um titil í sumar er úr sögunni:

„Við verðum bara að halda áfram að stefna á Evrópusæti úr þessu. Það er vel mögulegt,“ segir Einar.

Talandi um Evrópusæti þá eru Víkingar einmitt á leið í Evrópuleik til Slóveníu, við þær sérstöku aðstæður sem nú eru:

„Við erum alla vega ekki að fara í neina menningarferð, en það verður alltaf eftirminnilegt að spila í Evrópukeppni. Líka í þessum kringumstæðum – 30 manns í 180 manna flugvél, algjör einangrun á hótelinu og slíkt, en svo er það bara leikurinn sem skiptir máli og við ætlum auðvitað að vinna hann.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira