Viðskipti innlent

Meta fjárhagsleg áhrif samkomulags við Boeing á 35 milljarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þrjár af þeim 737-MAX vélum sem Icelandair átti að fá frá Boeing hafa meðal annars verið geymdar á þessu bílastæði í grennd við verksmiðju Boeing við Seattle í Bandaríkjunum.
Þrjár af þeim 737-MAX vélum sem Icelandair átti að fá frá Boeing hafa meðal annars verið geymdar á þessu bílastæði í grennd við verksmiðju Boeing við Seattle í Bandaríkjunum. Getty/David Rider

Icelandair reiknar með að fjárhagsleg áhrif samkomulags við flugvélaframleiðandann Boeing vegna 737 MAX flugvélanna nemi um það bil 260 milljónum dollurum, 35 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Þetta kemur fram í kynningargögnum Icelandair vegna væntanlegs hlutafjárútboðs sem halda á í næsta mánuði. Icelandair birti gögnin í gærkvöldi. Félagið hefur að undanförnu unnið að því ná samkomulagi við Boeing um bætur vegna Boeing 737 Max vélanna, sem hafa verið í alþjóðlegu flugbanni eftir tvo mannskæð flugslys.

Icelandair reiknar með að taka sex MAX-vélar inn í flugflota sinn til viðbótar, þrjár í vetur, og þrjár veturinn þar á eftir.Mynd/Icelandair

Icelandair hafði pantað 16 slíkar flugvélar og fengið sex afhentar. Félagið hefur hins vegar lítið geta notað þær og verið í viðræðum um bætur við Boeing vegna þess. Fréttir hafa verið sagðar af því að nást hafi samkomulag á milli Icelandair og Boeing um bætur, án þess að miklar upplýsingar hafi verið gefnar um fjárhagsleg áhrif samkomulagsins.

Í kynningargögnunum segir að samkomulagið við Boeing sé þríþætt. Það feli í sér greiðslu frá Boeing, Icelandair kaupi sex 737 MAX vélar til viðbótar í stað tíu og að Icelandair fái afslátt af kaupverði þeirra MAX-véla sem félagið á eftir að fá afhentar. Icelandair segist einnig hafa tryggt fjármögnun vegna kaupa á vélunum sex sem eftir standa.

Í gögnunum segir að vænt áhrif þess á fjárhag Icelandair nemi alls 260 milljónum dollara, um 35 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Til samanburðar má geta þess að möguleg ríkisábyrgð vegna Icelandair sem tilkynnt var um í gær nemur allt að 16,5 milljörðum, auk þess sem að Icelandair ætlar sér að safna allt að 23 milljörðum í hlutafjárútboðinu.

Í gögnunum segir einnig að félagið geri ráð fyrir að flugmálayfirvöld heimsins opni á það á síðasta ársfjórðungi ársins að MAX-vélarnar hefji sig til lofts á ný.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×