Erlent

Byssurnar á loft á stefnumótskvöldi

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndband af atvikinu hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu.
Myndband af atvikinu hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu.

Hjónin Chase og Nicole McKeown voru úti að borða Í Louisville í Kentucky um helgina þegar þau urðu vör við að verið var að ræna skyndibitastaðinn sem þau voru á. Bæði Chase og Nicole eru lögregluþjónar og voru þau fljót að bregðast við og reka ræningjann á brott, góma hann og handtaka hann.

Myndband af atvikinu hefur farið eins og eldur um sinu á internetinu.

Chase og Nicole voru á svokölluðu stefnumótskvöldi og tóku þá ákvörðun að borða á Raising Cane's Chicken Fingers.

Á meðan þau voru að borða gekk Justin Carter inn og var hann grímuklæddur. Hann sýndi starfsmanni staðarins byssu og skipaði honum að láta sig hafa peninga.

Í viðtali við fjölmiðla sagði Nicole að hún hefði átta sig á því hvað væri að gerast þegar starfsmaðurinn lyfti upp höndunum.

„Við horfðum á hvort annað. Er þetta í alvörunni að gerast? Jæja, af stað,“ sagði Chase.

Saman stóðu þau upp, tóku upp byssur sínar og kölluðu á Carter. Hann kastaði frá sér byssu sinni og hljóp á brott. Hjónin eltu hann þó og handtóku skömmu seinna.

Carter hefur verið ákærður fyrir vopnað rán, vörslu stolinnar byssu og fyrir að bera skotvopn í óleyfi sem dæmdur maður.

Hjónin Chase og Nicole hafa verið gift í um hálft ár og þau borðuðu á sama stað eftir brúðkaup þeirra.

Kjúklingastaðurinn skipar sér nú líklega enn stærri sess í lífum þeirra og þar að auki hafa forsvarsmenn veitingahúsakeðjunnar heitið því að þau geti borðað þar ókeypis í minnst ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×