Erlent

Komast ekki að niðurstöðu um alvarlegustu ásakanirnar gegn Weinstein

Kjartan Kjartansson skrifar
Tugir kvenna hafa sakað Harvey Weinstein, sem er 67 ára gamall, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi eða áreitt sig kynferðislega.
Tugir kvenna hafa sakað Harvey Weinstein, sem er 67 ára gamall, um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi eða áreitt sig kynferðislega. Vísir/EPA

Kviðdómendur í máli Harveys Weinstein, kvikmyndaframleiðandans sem er sakaður um að hafa beitt fjölda kvenna kynferðislegu ofbeldi og áreitni, hafa ekki náð samstöðu um alvarlegustu ákæruliðina í máli hans í New York. Dómarinn í málinu bað kviðdóminn um að halda áfram að ráða ráðum sínum.

Málið gegn Weinstein varðar ásakanir tveggja kvenna um að hann hafi beitt þær kynferðisofbeldi. Hann lýsti sig saklausan af öllum sökum og heldur því fram kynferðislegt samband hans við konunnar hafi verið með vilja þeirra.

New York Times segir að kviðdómendur í máli hans hafi sent dómaranum bréf síðdegis í dag þar sem kom fram að þeir hefðu ekki náð niðurstöðu um alvarlegustu ákæruliðina sem lífstíðarfangelsi liggur við en að þeir gætu hafa náð saman um úrskurð um þrjú vægari brot. Spurðu þeir hvort þeir gætu skilað inn úrskurði um hluta ákærunnar án þess að segja hver niðurstaða þeirra væri um brotin sem þeir eru sammála um.

Lögmenn Weinstein segjast tilbúnir að fallast á úrskurð um hluta ákærunnar en saksóknarar eru andvígir því. Dómarinn skipaði kvíðdómendunum að halda áfram að ræða málið en sendi þá heim yfir helgina.

Weinstein er sakaður um að hafa nauðgað Jessicu Mann þegar hún sóttist eftir því að verða leikkona, og að ráðast kynferðislega á Mimi Haleyi, fyrrverandi aðstoðarframleiðanda. Annabella Sciorra, sem lék í þáttunum um Soprano-fjölskylduna, bar vitni í málinu og sakaði Weinstein um að hafa neytt sig til munnmaka veturinn 1993 eða 1994, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Það brot var fyrnt og gátu saksóknarar ekki ákært Weinstein fyrir það.

Fleiri en áttatíu konur hafa stigið fram og sakað Weinstein um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni. Ásakanirnar komu af stað MeToo-byltingunni svonefndu þar sem konur komu fram með sögur af kynferðislegri áreitni eða ofbeldi af hálfu valdamanna í viðskiptum, stjórnmálum, fjölmiðlum og afþreyingariðnaðinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×