Erlent

Tvö dauðs­föll á einni viku við há­tíða­höld í New Or­leans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Mardi Gras-skrúðgöngu í New Orleans um helgina.
Frá Mardi Gras-skrúðgöngu í New Orleans um helgina. Vísir/AP

Tveir hafa látist á einni viku eftir að hafa orðið fyrir vögnum í skrúðgöngu við Mardi Gras-hátíðarhöld í bandarísku borginni New Orleans. Dauðsföll tengd slíkum skrúðgöngum eru sjaldgæf og hafa yfirvöld nú gripið til ráðstafana.

Kona á sextugsaldri lést á miðvikudag er hún hrasaði um slá sem tengdi tvo vagna saman, með þeim afleiðingum að seinni vagninn ók yfir hana. Seinna dauðsfallið varð um kvöldmatarleytið á laugardag. Maður er talinn hafa dottið er hann reyndi að grípa hlut sem kastað var úr skrúðgöngunni. Við fallið hafnaði maðurinn undir stórum vagni í tveimur hlutum, sambærilegum þeim sem konan varð fyrir.

Borgarstjóri New Orleans hefur bannað notkun á slíkum vögnum á öllum Mardi Gras-tengdum hátíðarhöldum sem eftir lifir. Haft er eftir henni í fjölmiðlum vestanhafs að dauðsföllin tvö séu mikill harmleikur og að borgin öll muni syrgja hin látnu.

Afar sjaldgæft er að fólk láti lífið við Mardi Gras-fögnuð í New Orleans. Síðasta dauðsfallið varð árið 2008 og þar áður er dauðsfall skráð árið 1981.

Mardi Gra er kjötkveðjuhátíð sem haldin er í ýmsum myndum víða um heim. Í New Orleans hefjast hátíðahöldin strax á þrettándanum í janúar og standa þar til á öskudag. Milljónir ferðamanna sækja borgina heim á meðan hátíðin stendur yfir á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×