Erlent

Forsætisráðherra Malasíu segir af sér

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mahathir Mohamad hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum.
Mahathir Mohamad hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum. vísir/getty

Mahathir Mohamad, forsætisráðherra Malasíu, hefur sagt af sér. Að því er fram kemur á vef Guardian kemur afsögn hans í kjölfar ásakana um að hann hafi svikið loforð um að færa völdin til arftaka síns, Anwar Ibrahim.

Mahathir er 94 ára gamall og elsti forsætisráðherra heims. Hann vann óvæntan sigur í þingkosningum í Malasíu árið 2018 eftir að mikið spillingarmál skók UMNO-flokkinn (United Malays National Organisation) sem verið hafði verið við völd í landinu í áratugi.

Mahathir fór fram í kosningunum 2018 fyrir Bersatu-flokkinn. Anwar, sem áður hafði verið pólitískur andstæðingur Mahathir, myndaði bandalag með honum í kosningunum 2018 gegn loforði um að hann yrði forsætisráðherra síðar á kjörtímabilinu.  

Ekki er ljóst hvort að afsögn Mahathir nú leiði til þess að boðað verði til kosninga í landinu en Anwar setti fram ásakanir sínar um svikin loforð eftir að fulltrúar úr bandalagi þeirra Mahathir funduðu með félögum úr UMNO-flokknum um helgina.

Sagði Anwar að flokkur Mahathir og svikarar sem þar væru, væru að skipuleggja breytingar á bandalaginu sem á endanum myndi þýða að hann fengi ekki forsætisráðherrastólinn.

„Við vitum að það er verið að reyna að brjóta niður PH-bandalagið og mynda nýja ríkisstjórn,“ sagði Anwar en PH stendur fyrir Pakatan Harape eða Vonarbandalagið.  

Mahathir hefur lengi verið áberandi í malasískum stjórnmálum. Hann var leiðtogi UMNO-flokksins frá 1981 til 2003 og forsætisráðherra Malasíu á sama tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×