Íslenski boltinn

Skaga­­menn eiga góðar minningar frá Hlíðar­enda og vilja endur­taka leikinn í kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Valur og ÍA áttu að mætast í júlí en mætast í dag.
Valur og ÍA áttu að mætast í júlí en mætast í dag. VÍSIR/DANÍEL

Valur og ÍA mætast í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Leiknum var frestað þann 31. júlí vegna kórónuveirunnar en nú getur leikurinn loks farið fram.

Það verða þó eðlilega engir áhorfendur á leik kvöldsins sem fer fram á Hlíðarenda. Flautað verður til leiks klukkan 19.15 og er leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Liðin hafa mæst einu sinni áður í sumar en það var einnig á Origo-vellinum. Þau mættust 3. júlí og Skagamenn gerðu sér lítið fyrir og skelltu Valsmönnum, 4-1.

Viktor Jónsson skoraði fyrsta markið á 4. mínútu og þeir Tryggvi Hrafn Haraldsson og Bjarki Steinn Bjarkason komu Skagamönnum í 3-0 fyrir hlé.

Klippa: Valur - ÍA 1-4

Patrick Pedersen minnkaði muninn fyrir Val í upphafi síðari hálfleiks og Steinar Þorsteinsson skoraði fjórða mark Skagamanna stundarfjórðungi fyrir leikslok. Lokatölur 4-1.

Einhverjir Valsmenn hafa þá kannski haldið að þetta væri að stefna í svipað vonleysi og á síðustu leiktíð en liðið hefur heldur betur snúið við taflinu eftir það.

Síðan þá hafa Valsmenn spilað sex deildarleiki. Þeir hafa unnið fimm leiki af þessum sex og tapað einum.

Skagamenn hafa hins vegar einungis unnið tvo af leikjunum sex frá því að liðin mættust á Hlíðarenda. Liðið hefur tapað svo þremur leikjum og gert eitt jafntefli.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Leikurinn verður einnig í beinni textalýsingu í Boltavaktinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×