Innlent

Dæmdur sekur um kynferðislega áreitni gegn stjúpdóttur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni gegn stjúpdóttur hans. Maðurinn var ákærður í þremur liðum, en aðeins þótti sannað að hann hafði tekið buxur og nærbuxur sjúpdótturinnar niður um hana þegar hún var sofandi. Stúlkan var níu eða tíu ára þegar brotið var framið.

Manninum var auk þess gefið að sök að hafa strokið kynfæri hennar í umrætt skipti. Þá var hann ákærður fyrir að hafa ítrekað á árinum 2009 til 2011 látið stúlkuna sitja í fangi hans er hann leyfði henni að keyra bíl. Á meðan var hann sagður hafa haft hendur sínar undir buxnastreng stúlkunnar og strokið brjóst hennar innanklæða.

Að auki var maðurinn ákærður fyrir að hafa farið inn í herbergi stúlkunnar árið 2014, þegar hún var sextán ára, og dregið niður hlýrabol hennar og þannig berað á henni brjóstin.

Þrátt fyrir að framburður stúlkunnar hafi verið metin trúverðugur þótti ekki sannað að maðurinn hafði gerst sekur um þau brot sem hann var ákærður fyrir, ef frá er talið að hafa tekið buxur og nærbuxur sjúpdótturinnar niður um hana þegar hún var átta eða níu ára gömul og sofandi.

Í dómi héraðsdóms segir að það litið hafi til þyngingar refsingar að maðurinn braut gegn stjúpdóttur sinni sem var á barnsaldri.

Þá þóttu tengsl ákærða við brotaþola hafa aukið á grófleika verknaðarins og horfir það sömuleiðis til refsiþyngingar. Var maðurinn dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hann þarf að greiða stúlkunni 500 þúsund í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×