Íslenski boltinn

Skelfileg tíðindi fyrir Elfar og KA

Sindri Sverrisson skrifar
Elfar Árni Aðalsteinsson raðaði inn mörkum fyrir KA á síðustu leiktíð.
Elfar Árni Aðalsteinsson raðaði inn mörkum fyrir KA á síðustu leiktíð. vísir/bára

Elfar Árni Aðalsteinsson og lið hans KA hafa orðið fyrir miklu áfalli en útlit er fyrir að sóknarmaðurinn öflugi, sem skoraði 13 mörk í Pepsi Max deildinni í fótbolta fyrra, sé með slitið krossband í hné.

Fótbolti.net greindi frá þessu í kvöld og Elfar staðfesti við Vísi að eftir skoðun í gær væri útlit fyrir að krossbandið hefði farið:

„Það lítur þannig út. Þetta er ekki orðið 100 prósent en það lítur út fyrir að ég þurfi að fara í aðgerð,“ segir Elfar, sem meiddist í 5-1 sigri á Þór í lokaleik Kjarnafæðismótsins í byrjun þessa mánaðar.

„Ég tæklaði leikmann og fékk þá högg á hnéð, hélt áfram en þá gaf hnéð sig aftur. Þetta voru tvö atvik þarna í leiknum,“ segir Elfar sem hefur ekki lent í svo alvarlegum meiðslum áður:

„Þetta er það versta sem ég hef lent í hingað til. En ég var bara í skoðun í gær svo þetta er aðeins að meltast og hnéð ennþá að losna við bólgur og svoleiðis, áður en hægt verður að sjá þetta almennilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×